2017

Jæja, þá er komið að samantekt ársins 2017 þar sem fjölmargt gerðist. Samantektin er í 3 flokkum; Lífstíll, áhugamál og vinna.

Lífstíll:

Á þessu ári ákvað ég að einbeita mér betur, fækka truflunum, auka nám (e.input), fækkaði hlutum í kringum mig og kom betri rútínu á hlutina. Ég tileinkaði mér naumhyggju (e.minimalism) að miklu leyti. Henti hlutum, keypti minna, fór í langa göngutúra á hverjum einasta degi, hlustaði á hlaðvörp og hljóðbækur, las meira og reyndi að borða kvöldmat með mömmu og pabba a.m.k. einu sinni í viku.

Áhugamál:

Það þrennt sem átti huga minn (fyrir utan menntamál, tækni og framtíðina) voru tónlist, súrdeig og bjór.Hápunktur tónlistarlífsins hjá mér voru tónleikar Ásgeirs Trausta á Hvammstanga. Uppáhalds lög frá árinu eru aðgengileg hér: Tónlistinn 2017.Ég fór einnig á námskeið hjá Salt Eldhús í súrdeigsgerð á árinu og það var alveg frábært. Ég fékk „súr" í lokin og hef haldið honum gangandi síðan. Ég hef í framhaldi fengið æði fyrir súrdeigspizzum og gert mér deig og pizzur a.m.k. 2x í mánuði (4-8 deig í einu) og haldið ófáar pizzuveislurnar.Það sem passar einstaklega vel með þessu er svo bjór.... og hvað er betra en heimabruggaður með góðum vin. Félagar mínir gáfu mér brugggræjur í fyrra frá brew.is og fór ég með þær til Ragga félaga míns og við brugguðum 3 tegundir á árinu:1.Bee Cave APA2. Zombie Dust Clone APA (~IPA)3. Wheat Robe HveitibjórYndislegt :)

Vinna:

Við kláruðum markmiðið að tækjavæða alla skólana sem við settum er ég byrjaði í starfi Sveitarfélagsins sem kennsluráðgjafi í skólaþróun, tækniþróun og nýsköpun. Það var jákvætt skref :)Ég var nokkuð á flakki að heimsækja skóla um landið, halda fyrirlestra og vinnustofur. Hélt til Barcelona í upphafi sumars með vinnustofur, var valinn fyrsti Apple Distinguished Educator á Íslandi, fyrsti Google for Education Certified Innovator og fyrsti Google for Education Certified Trainer á Íslandi.Ég hélt ýmsa fyrirlestra/vinnustofur m.a. á Iceland Summit frá EdTechTeam, Menntadegi atvinnulífsins, í Grunnskólanum í Grindavík, fyrir Skólastjórafélag Íslands, Skólameistarafélag Íslands, Sjálfstætt starfandi skóla í Hörpu, í Flensborg, Nesskóla, Þingeyjarskóla, Norræna skólastjórnendur á vegum SÍ, Vinnumálastofnun, Aðalfyrirlestur á Námsstefnu SÍ á Grand hótel, Fjallabyggð, Reykjanesbæ og Ísafjarðarbæ svo eitthvað sé nefnt.Við tókum á móti nokkrum skólum og einstaklingum sem komu að skoða starfið okkar fyrir norðan og það var mjög skemmtilegt.Hápunkturinn á árinu er samt klárlega UTís 2017, sem var haldið í 3ja sinn og aðeins um helmingur umsækjenda sem komst að enda besti einstaki menntaviðburður á árinu. Það var æðisleg helgi og get ég ekki beðið eftir UTís 2018 9-11.nóvember n.k.

Hér lokum við bókinni á 2017 og opnum nýja fyrir 2018.

Markmiðin fyrir 2018 eru að fækka hlutum enn frekar, fylgja reglunni að ef verkefni er ekki 'Hell Yes', þá segi ég nei. Ég ætla að einbeita mér að því að 'output' með Menntavarpinu og blogginu mínu, en bæði lá í dvala árið 2017.Fókus í vinnu verður áfram á iPad, Mac og Chromebook (G Suite for Education) en einbeitingin á ákveðna hluti verða helst Breakout EDU, SpheroEDU, Ricoh Theta V + 360 og Sketchnoting teikningar.Ég ætla að fara dýpra í naumyggju, efla sambönd mín (utan nets), taka betri myndir, hanna meira, taka mér meiri tíma í hluti sem skipta raunverulegu máli, horfa meira upp, lesa meira, skrifa meira og hlusta betur.Gleðilegt nýtt ár.

Previous
Previous

Questions

Next
Next

Spurningar