Febrúar í myndlist

Eins og ég sagði frá í færslu í lok janúar þá breytti ég starfi mínu verulega eftir áramót þannig að nú starfa ég nær eingöngu í einum árgangi eða með ákveðnum kennara í nokkrar vikur í senn. Allt annað er auka.Ég hef margoft talað um mikilvægi listgreina í skólastarfi (og samfélaginu öllu) og fannst því vel við hæfi að næsta verkefni væri vika í myndlist í Árskóla þar sem ég ynni við hlið Ægis Ásbjörnssonar myndlistar- (og leiklistar) kennara.Hann hefur 15 iPad Pro spjaldtölvur (12,9") og Apple Pencil til afnota og var ætlun mín að hjálpa honum að nýta þá betur til þess að mæta þeim markmiðum sem hann er með til hliðsjónar í sinni kennslu.Síðasta vika var því tekin undir og undirbjuggum við kennslu með 4-7.bekk allri tengdri upplýsingatækni og myndlist hjá honum en það er einmitt ein af mínum uppáhalds greinum til þess að nýta upplýsingatæknina og teikna sjálfur nokkuð mikið í iPad, bæði glósur á fyrirlestrum (e.sketchnoting) sem og alls konar hönnun og hugmyndavinna.Þar sem allir nemendur skiptast á að nota iPad-ana í myndlist (en ekki sína eigin) þá er Google Drive mappa í þeim öllum sem heitir 'Nemendur - listir' sem er deilt með Ægi myndlistarkennara, undir henni eru svo mappa fyrir hvern árgang og loks mappa fyrir hvern nemanda undir henni. Þeirri möppu er svo deilt á viðkomandi nemanda á þeirra eigin Gooogle Drive. Í Paper by 53 eru nemendur með sína bók í sínum iPad, en nemendur taka alltaf sama iPad-inn á milli tíma. Í lok tíma skoða þau batterýstöðuna á iPadinum og pennanum og hlaða eftir þörfum.Hér eru verkefnin þessa vikuna:

4.bekkur - mála eftir auga og svo eftir mynd (Paper by 53)

Þarna hengdum við upp málverk sem er í raun litaspjald. Nemendur áttu að blanda liti í Paper by 53 eftir auganu sínu og lita þá eftir bestu getu. Að því loknu tókum við mynd beint inni í forritinu og tókum litina úr myndinni og lituðum „rétta" liti þar við hlið.Þetta var skemmtileg æfing fyrir krakkana að ræða svo muninn á því hvað við sjáum og hvað sé í raun og veru.

5.bekkur - andlit úr ávöxtum og grænmeti í Photoshop Mix

Í þessu verkefni fundum við um 30 mismunandi ávexti og grænmeti og „AirDroppuðum" á nemendur þannig að allir höfðu sama grunn að vinna með. Þau máttu ná í sérstaka ávexti ef það vantaði en tíminn átti frekar að fara í vinnu með efnið frekar en Google leit ;)Nemendur fengu smá kynningu á Photoshop fyrst, hver 'layers' virka, hvernig þau sameina þau og hvernig þau klippa út þá hluti sem þau vinna og í hvaða röð þau raða þeim.Nemendur tóku svo tímann í að raða upp, snúa, prófa og henda, reyna aftur og loks vista á Drive.

6.bekkur - Expressionismi í Paper by 53

6.bekkur fékk kynningu á Expressionisma í upphafi tíma og fór svo í Paper appið, opnaði sína bók og tók sjálfsmynd þar sem þau sýndu svipbrigði. Sú mynd var svo í bakgrunni og unnu nemendur litríka mynd ofaní sjálfsmyndina.

7.bekkur - PopArt í PhotoJus og listaverk í anda Piet Mondrian í Paper by 53

Í fyrri tíma 7.bekkjar fengu þau kynningu á PopArt listaverkum. Síðan fengu þau iPad með PhotoJus appinu á og áttu að taka a.m.k. 10 myndir, þ.á.m. eina sjálfsmynd og breyta í Pop-listaverk. Þegar sú vinna var búin áttu þau að velja 1 sjálfsmynd og 2 aðrar myndir til þess að safna í myndlistarsýningu. Þessum myndum AirDrop-uðu þau á Ægi kennara.Í seinni tímanum var kynning á Piet Mondrian og stílnum hans. Nemendur tóku mynd á iPadinn sinn, teiknuðu hana (skissa) með blýanti á blað þar sem þau einbeittu sér að formum. Sú mynd var svo teiknuð inn í Paper í stíl Mondrian þar sem 'form'penninn var notaður (ferningar, þríhyrningar, hringir og beinar línur).Þetta var skemmtileg vinna og frábær listaverk á leiðinni þarna.


Það er óhætt að segja að þessi vika hafi verið mjög skemmtileg. Með tækninni náðum við að fara dýpra og lengra en við hefðum náð án hennar. Myndlistin fékk að njóta sín en tíminn fór ekki allur í handavinnu (eins og að lita með tré- eða vaxlit) heldur í listsköpun og þróun á verkinu. Auðvelt var að prófa og bakka og reyna aftur. Krakkarnir voru ekki hræddir við mistök heldur leyfðu ímyndunaraflinu að njóta sín.Vonandi gagnast þetta þér og þínum nemendum.Ingvi Hrannar

Previous
Previous

Alræmd próf - 9 ástæður fyrir því að samræmd próf eigi að leggja niður

Next
Next

Janúar í 8.bekk