Marsmánuður í 5.bekk

Eins og ég hef sagt frá í þessum 2 bloggfærslum (Janúar í 8.bekk og Febrúar í myndlist) þá breytti ég áherslum í starfi mínu verulega eftir áramót þannig að nú starfa ég nær eingöngu í einum árgangi eða með ákveðnum kennara í nokkrar vikur í senn. Allt annað er auka.

Í lok febrúar hitti ég Söndru Magnúsdóttur og Katrínu Ingólfsdóttur, umsjónarkennara 5.bekkjar í Árskóla þar sem 32 nemendur eru saman í opinni skólastofu. Við ákváðum að ég kæmi inn, undirbyggi með þeim og kenndi með þeim íslensku, ensku, listir, samfélagsfræði, lífsleikni og náttúrufræði.

Hér eru sýnishorn af því sem við unnum saman í marsmánuði með nemendum en ég bendi á að 5.bekkingar tóku ekki upp blýant í þessum fögum í mars. Allir nemendur eru með iPad og kennarar bæði með MacBook og iPad.

Að fara yfir markmið en ekki vinnubækur

Það fyrsta sem kennarahópurinn gerði var að fara saman yfir markmið vetrarins. Þau markmið settum við í Google Sheets skjal sem við höfðum öll aðgang að. Fliparnir heita eftir námsgreinum í Aðalnámskrá grunnskóla. Vinstra megin í skjalinu voru markmiðin og síðan settum við verkefnin efst. Síðan var hakað í hvaða verkefni við ætluðum að vinna og hvaða markmiðum það ynni að.

Apple Classroom

Eftir það settum við upp Apple Classroom þannig að kennarar gætu hjálpað nemendum að nýta tækið betur til náms, opnað öpp, sent þeim myndir og gögn og fengið verkefni sent frá nemendum svo eitthvað sé nefnt. Apple Classroom er sett upp þannig að kennari sækir appið (frítt). Kennarinn þarf að vera á sama neti og nemendur og allir með kveikt á Bluetooth. Síðan bætir kennari nemendum við bekkinn sinn (Add+) og hefur því yfirsýn yfir tækin á meðan á kennslustund stendur kjósi hann það. Áður en við byrjuðum útskýrði ég fyrir nemendum hvað þetta væri. Að tólið væri ætlað til þess að aðstoða þau í námi og auðvelda okkur bæði nám og kennslu.

Kennarar geta klúðrað notkun á Apple Classroom stórkostlega ef þetta er eingöngu notað sem einhvers konar eftirlitstæki, kennari læsir tækjum oft og skammar nemendur fyrir framan aðra fyrir að taka sér smá pásur inn á milli (pásur sem við tökum öll). Við ræddum um notkunina, hvers vegna við ætluðum að nota þetta. Hvenær og að okkar markmið væri að hjálpa þeim að nýta tækið sem best. Ég sýndi þeim m.a.s það að nemandi dytti út hjá mér um leið og hann labbaði út úr skólastofunni og við misstum Bluetooth...Apple Classroom virkaði frábærlega þennan mánuðinn. Ekki sem agatól heldur til þess að vita hvar nemendur væru staddir í náminu, hver þyrfti aðstoð og hvert þau væru komin. Einnig að senda þeim gögn, myndir, vefsíður og fleira. Markmið okkar væri að hjálpa þeim að vera betri í notkuninni og þannig að við gætum séð hver þyrfti aðstoð og við hvað.

Google Classroom

Það var einnig mikilvægt að ég kæmi inn sem kennari í alla Google Classroom „áfanga" bekkjarins og að verkefni færu þar inn svo allir nemendur hefðu aðgang að þeim hvar sem er... ekki þessi endaluausa útprentun. Hluti af þessum mánuði mínum með 5.bekk var einmitt að aðstoða kennara að færa kennsluna sína í auknum mæli rafrænt (svo lengi sem það hjálpaði nemendum).

Tónlist, dans og forritun

Í tímum sem heita Listir ákváðum við að samtvinna tónlist, dans og forritun. Nemendur unnu saman í 2ja - 4ra manna hópum þar sem þau áttu að finna lag sem hægt var að dansa við. Síðan máttu nemendur annað hvort forrita Sphero, Dash eða „forrita" sjálfa sig til þess að dansa við lagið.Hér eru 4 stúlkur að ræða um hvernig best sé að forrita Dash til að hreyfa sig við lagið sem þær völdu.

Myndböndum var svo skilað í Flipgrid og horfðu nemendur á myndböndin hvert hjá öðru að verkefninu loknu sem vakti mikla lukku.

Þarna samtvinnuðum við tónlist, dans og forritun með skemmtilegum hætti og höfðu nemendur mjög gaman af.

Enska

Eitt af markmiðum okkar var að auka tjáningu og tal í ensku og er það erfitt með hefðbundnum vinnubókum. Við tókum því á það ráð að búa til 3 mismunandi rafbækur í Book Creator eftir erfiðleikastigi þar sem nemendur fengu bækurnar sendar í gegnum AirDrop.

Bækurnar gengu út á það að þær voru fylltar af „felumyndum" og áttu nemendur að finna hluti, skrifa heitið á þeim og taka sig upp við það að segja orðið.

LyricsTraining

Við leyfðum nemendum einnig að prófa LyricsTraining og það var skemmtilegt eins og vanalega. Ég einfaldlega opnaði síðuna í iPadinum þeirra í gegnum Apple Classroom og allir fóru beint á réttan stað, fengu kynningu og gátu byrjað.

Náttúrufræði

Nokkur af markmiðum okkar í náttúrufræði þar sem við töldum best að vinna með náttúruvernd.

Fyrst ræddum við almennt við krakkana um náttúruna. Vangaveltur um hvernig jörðin myndi líta út ef menn væru ekki á henni. Hvaða dýr væru? Hvernig væri gróður og fleira. Í kjölfarið horfðum við á ýmis myndbönd um mengun, gróðurhúsaáhrif, áhrif mannsins á náttúruna og fleira.Við fórum í sýndarveruleika-heimsókn í flokkunarstöð í New York og skoðuðum rusl og hvernig það er flokkað, endurunnið og/eða urðað.Eftir það var nemendum skipt í 3 hópa.Hópur 1 ræddi um „Hvernig getum við gert Sauðárkrók að umhverfisvænasta bæ heimsins?".Hópur 2 ræddi um „Hvernig getum við gert Árskóla að umhverfisvænasta skóla heimsins?"Hópur 3 vann með hönnunarhugsun (e. Design thinking) og ræddi um „Hvernig getum við gert 4ra ára og 104 ára kleift að flokka rusl betur?"Vinnan með þetta heldur áfram eftir páska og munu nemendur gera tilraunir að úrbætum í bænum/skólanum og heima hjá sér en nú eru 11 nemendur með það verkefni yfir páskana að prófa eina af hugmyndum flokkunarhópsins og koma með hugmyndir og úrbótum.

Benjamín dúfa (Íslenska)

Í gegnum alla íslenskukennsluna unnum við með bókina Benjamín dúfu eftir Friðrik Erlingsson. Markmiðin voru ekki einungis úr íslensku (en þau markmið má sjá efst í þessari færslu eða hér). Við fléttuðum einnig fjölmörg markmið í samfélagsfræði, lífsleikni og náttúrufræði inn í vinnu með bókina. Hér má sjá nokkur úr samfélagsgreinum sem við nýttum og unnum með.

Ritunaræfingar

Eftir að ég gerði könnun hjá fyrrverandi nemendum um hvað þau hefðu viljað læra betur í námi sínu í Árskóla kom m.a. fram að þau vildu vera betri í fingrasetningu. Með það í huga náðum við í Chromebook tölvurnar sem Árskóli á (alls 46 stk.) og settum við upp verkefni bæði með 10 Fast Fingers og settum inn verkefni á Google Classroom þar sem nemendur skrifuðu texta eftir upplestri í bókinni þar sem lykilsetningar úr kaflanum voru lesnar.

Kyrrmyndir

Benjamín, Baldur og Andrés sjá Róland í fyrsta sinn.

Guðlaug bjargar Róland úr klóm Helga svarta og Bergs á meðan krakkar á leikvellinum horfa frosin á.

Regla rauða drekans njósnar um Helga svarta.

Til þess að vinna með efni bókarinnar á sýnilegan hátt er tilvalið að gera það í gegnum aðferðir leiklistarinnar. Kyrrmyndir er ein af kennsluaðferðunum sem gott er að nota með öllum aldri. Hér má sjá aðeins um aðferðina en enn betri umfjöllun er í bókinni 'Leiklist í kennslu - Handbók fyrir kennara'.Eftir lestur á fyrri hluta bókarinnar sótti ég ýmsa leikmuni eins og sverð, veski, leðurföt og fleira og fékk nemendur til þess að sýna með kyrrmynd hvað var að gerast. Í raun er það þannig að þú segir þeim hvaða atvik er í gangi og þau stilla sér upp með viðeigandi líkamstjáningu og svipbrigðum fyrir þá persónu sem þau eiga að túlka í sögunni.

Að semja og svara spurningum

Eitt af verkefnunum var að nemendur áttu á semja og svara spurningum úr hlutum/köflum í bókinni. Þær spurningar voru svo m.a. notaðar og nemendur spurðir út úr spurningum annarra nemenda m.a. í gegnum Plickers.

Plickers svör

Skjámynd af iPad kennarans á meðan hann skannar inn Plickers-spjöldin hjá nemendum

Til þess að athuga skilning nemenda á efni sögunnar notuðum við m.a. Plickers appið til þess að fá svör frá nemendum. Plickers virkar þannig að allir nemendur fá einstakt spjald sem er merkt með númeri og svo er hver hlið á forminu merkt með A, B, C eða D. Það sem nemendur vilja svara snúa þeir upp. Nær ómögulegt er fyrir aðra nemendur að sjá svar hinna því nær enginn munur er á merkjum eða hliðum. Kennarinn notar svo iPad til þess að skanna inn svörin þeirra og safnar þeim saman á einfaldan hátt. Nemendur geymdu svo spjöldin sín og var einfalt að grípa í þessa leið til þess að meta skilning þeirra og skoðanir.

Flipgrid svör

Eitt af því sem við gerðum einnig var að heyra í öllum nemendum um hvað þeim fannst um ákveðna atburði í sögunni. Ekki með því að allir réttu upp hönd og við völdum 1-3 til þess að segja sína skoðun. Nemendur fengu bara einfaldlega nokkrar mínútur til þess að vinna hvar sem er og svara þessum 3 spurningum frá eigin brjósti. Þannig fengum við að heyra í öllum og þeir nemendur sem eru óöruggir gátu tekið sig upp aftur og aftur. Fyrir þá sem eiga erfitt með lestur eða læra betur í gegnum hljóð/mynd þá gátu þau horft á myndband þar sem ég útskýri verkefnið og spurningarnar. Hér er skjámynd af Flipgrid verkefninu.

Lokaverkefni

Við lok bókarinnar máttu nemendur velja um 3 mismunandi lokaverkefni. Þetta máttu vera einstaklinga- eða samvinnuverkefni allt eftir því hvað hentar hverjum og einum til þess að sýna best skilning sinn á bókinni. Hér eru verkefnin sem nemendur fengu að velja úr. Það er svo gaman þegar nemendur koma manni á óvart. Einhverjir völdu að skrifa og var það flott vinna. Það hentar sumum best.

Nokkrir settu saman stuttmynd um eftirminnilegt atriði í bókinni:

Hús Guðlaugar brennur og Helgi svarti hleypur inn til að bjarga henni.

Sjúkrabíll og slökkviliðsbíll koma á staðinn.

Að gera allt hverfið í Minecraft

Séð inn götuna.

Fótboltavöllurinn, blokkin og heimili Balda.

Hús Guðlaugar og blokkin, séð frá „Leikó”.

Herbergi í blokkinni voru merkt.

Heimili Helga svarta.

Glugginn sem strákarnir sprautuðu vatni inn um.

Horfa á myndina saman og borða páskaegg, popp og drekka djús

Eftir lestur bókarinnar og skil á lokaverkefnunum horfðum við saman á myndina, drukkum djús, borðuðum popp og páskaegg. Sumir felldu tár... (m.a.s. strákarnir) og var það tilvalið til að eiga umræður um #karlmennskan og tilfinningar og mikilvægi þess að sýna þær.Vá hvað ég elska að vera kennari!Takk fyrir lesturinn. Vonandi gagnast þetta þér og þínum nemendum í meira skapandi námi í takt við Aðalnámskrá grunnskóla, með eða án tækni (...helst með samt).Ingvi Hrannar

Previous
Previous

Apríl með 6.bekk, 5.bekk og í Sphero forritun

Next
Next

Alræmd próf - 9 ástæður fyrir því að samræmd próf eigi að leggja niður