Starfskenning mín - Apríl 2010

Hér að neðan er að finna starfskenningu mína sem ég skrifaði við lok kennaranámsins.

Hvað er fagmennska og starfskenning?

Ef við veltum fyrir okkur hugtakinu fagmennska þá hefur Schön (Trausti Þorsteinsson, 2003) bent á að fagmaður reisi tilvist sína á vísindalegri þekkingu eða hafi á annan hátt sérfræði á valdi sínu sem grundvölluð er á vísindum. Hoyle (Trausti Þorsteinsson, 2003) telur að starf fagmanna sé byggt á því viðhorfi að þar til hæfir einstaklingar hafi frelsi til þess að nota þekkingu sína og færni í þágu skjólstæðinga sinna. Hann fái frelsi til þess að taka ákvarðanir á grundvelli sérfræðiþekkingar og siðareglna. Trausti Þorsteinsson (2003) bendir sjálfur á að ef kenna á nemendum á árangursríkan hátt gerist það ekki af tryggð við tilskipanir heldur af kostum vel menntaðra fagmanna sem nota þekkingu sína og dómgreind til þess að taka ákvarðanir að vel athuguðu máli í samræmi við þarfir hvers og eins.Hugtakið starfskenning er e.t.v. ekki öllum kunnugt. Hafdís Guðjónsdóttir (munnleg heimild, 11.janúar 2010) skilgreinir faglega starfskenningu sem leið fyrir kennara sem fagfólk að útskýra starf sitt á faglegan máta. Starfskenningin sé byggð á samspili milli þess sem kennarar gera, þekkingu og skilningi á því og siðferðilegum rökstuðningi, viðhorfi og gildismati. Ég tel skýra starfskenningu vera nauðsynlegan hluta af fagmennsku kennara og þeirri þróun sem orðið hefur á hlutverki þeirra í skólasamfélaginu.

Hvað hefur mótað mig sem kennara og fagmann?

Ég tel að þessari spurningu sé best svarað með því að svara henni í þremur hlutum. Í fyrsta lagi ber að nefna það uppeldi sem ég fékk og þau uppeldisskilyrði sem fjölskyldan mín skapaði mér. Ég ólst upp í litlum bæ úti á landi, Sauðárkróki, og þar eru nær allar mínar æskuminningar. Foreldrar mínir eru mér ómetanlegir og voru það þau gildi og viðhorf sem þau hjálpuðu til við að móta sem gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Skólaganga mín hefur frá 6 ára aldri til dagsins í dag komið að því að móta þau viðhorf og gildi sem ég hef í dag. En sem kennara og fagmann er það nám mitt við Menntavísndasvið Háskóla Íslands sem hefur þar mest að segja. Það var þó ekki fyrr en á annarri önn sem sýn mín á sjálfan mig og kennarastarfið tók stórstigum breytingum. Námskeið Heimspeki og hugmyndasaga breytti sýn minni og opnaði hug minn, því á því námskeiði uppgötvaði ég getu mína til fulls og fékk virkilega áhugann á því sem ég var að gera. Fyrirlestrarnir eru eftirminnilegir og bekkjartímarnir ógleymanlegir þar sem Kristján Kristjánsson, prófessor, kenndi okkur af sinni alkunnu snilld. Það var þetta námskeið sem breytti mér úr hverjum öðrum nemanda, í áhugasaman og metnaðarfullan námsmann. Fyrir vikið get ég nefnt að námskeið eftir það hafi opnað hug minn því ég tel mig hafa aðra sýn á sjálfan mig, skólastarf og lífið sjálft eftir þessa upplifun.Að sjálfsögðu hefur reynsla mín hjálpað mér mikið í náminu. Áður en ég byrjaði í kennaranáminu hafði ég starfað í félagsmiðstöð, flokkstjóri í Vinnuskólanum og á leikskóla svo eitthvað sé nefnt og sú reynsla gaf mér mikið til þess að byggja á í náminu. Reynsla mín sem nemandi í öðrum löndum hefur einnig gefið mér aðra sýn á skólastarf. Ég nam við McHenry High School í McHenry í Illinois-fylki í Bandaríkjunum í eitt ár og útskrifaðist þar vorið 2005. Haustið 2006 fór ég síðan í Idrætshöjskolen i Aarhus þar sem námið var fjölbreytt og mikið um valgreinar. Reynsla mín af þessum skólum gaf mér heilmikið og aðra sýn á hvernig skólar erlendis eru með ólíkar hugmyndir, áherslur og viðhorf.

Hvernig fagmaður vil ég vera og hver er starfskenning mín?

Þegar ég hugsa til þess hvernig fagmaður ég vilji vera sé mig sem samvirkan fagmann (e.interdependant professional). Ég met faglegt samráð við aðra kennara og fagmenn og ég tel að gangrýnin umræða innan skólans skapi aukinn árangur og ábyrgð. Sem fagmaður mun ég leita eftir nánu samstarfi við samkennara, foreldra og nemendur. Ég lít svo á að menntun barnsins sé ekki einungis í mínum höndum heldur samstarfsverkefni heimilis, skóla og barnsins sjálfs. Ég tel að þetta samstarf eigi að vera byggt á heiðarleika, umhyggju, gleði, réttlæti, trausti, áhuga og virðingu og að skólinn sé samfélag sem þjálfar nemendur í samskiptum og samvinnu.Samvirkir fagmenn líta á sig sem hluta af heild þar sem einstaklingarnir eru hver öðrum háðir innbyrðis, gæði skólans háð sameiginlegu framlagi þeirra og starfsþroski einstakra kennara liður í starfsþróun heildarinnar. Samvirkir fagmenn byggja starf sitt á heildarsýn sem felur í sér sameiginlegar skyldur við nemendur, samkennara og foreldra. Þeir líta einnig á það sem skyldu sína að hafa frumkvæði að því að þróa starf sitt með hagsmuni alls skólasamfélagsins að leiðarljósi. Þeim er ljóst að þeir verða að afsala sér ákveðnu sjálfræði eða faglegum yfirráðum til að geta orðið hluti af samvirkri heild sem stendur sameinuð að því að íhuga og rannsaka starf sitt með það fyrir augum að skapa nýja þekkingu sem leitt getur til umbóta.

-Rúnar Sigþórsson. (2004).

Mér finnst að nám eigi að taka mið af hagnýtum viðfangsefnum og að nemendur þurfi að sjá tilgang í þeirri vinnu sem þeir gera. Ég vil auka val nemenda og gera skólann að stað þar sem nemendur fá að njóta sín í því sem þeir eru góðir.„What we want to see is the child in pursuit of knowledge and not knowledge in pursuit of child.”

–George Bernard Shaw. (e.d.).

Það er mín skoðun að skólinn skuli vera eins og samfélagið sem við viljum sjálf búa í. Ekki er nóg að stefna skólans sé að undirbúa nemendur undir starf í lýðræðissamfélagi heldur á skólinn að starfa eins og lýðræðissamfélag þar sem nemendur hafa um það að segja hvernig starfið sé. Starfsemi skólans á að hæfa nemandanum og þarf að móta námskrána að þörfum og áhuga barnsins.Þegar ég hugsa um starfskenningu mína og hvernig kennsluumhverfi ég vil skapa nemendum mínum sé ég stað þar sem nemendur og kennari vinna saman að viðfangsefnum sem vekja áhuga þeirra. Í kennslustofunni fá nemendur að njóta sín og sjá árangur og tilgang með vinnu sinni. Í skólastofu þessari upplifa nemendur þá tilfinningu að ná tökum á einhverju sem þeir trúðu aldrei að þeir gætu. Í þessu umhverfi lifir og dafnar sköpunargáfan og nemendur eru spenntir að takast á við ný verkefni. Ég tel að markmið mitt sem fagmanns sé að aðstoða nemendur við að verða ábyrgir á sínu lífi og getað menntað sig í gegnum það.„Við erum ekki lengur að kenna ef það sem við kennum er orðið mikilvægara en hverjum við kennum og hvernig við gerum það”.

–Tomlinson, C. A. (2003, bls.10)

Ég tel að sem fagmaður muni ég vera virkur í faglegri umræðu um skólamál og menntun. Ég tel mikilvægt að við fáum fleira gott fólk í kennarastéttina, fólk sem hefur góða mannkosti og vel siðferðilega þjálfaða dómgreind. Fólk sem hefur mikla samkennd og getur auðveldlega sett sig í spor annarra. Þau verða að hafa áhuga og metnað fyrir starfinu og bera virðingu fyrir nemendunum og stuðla að velferð þeirra. Í þessu samhengi tel ég mikilvægt að kennarar fari vandlega yfir siðareglur sínar sem settar voru, á 2. þingi Kennarasambands Íslands, til að efla fagmennsku og styrkja fagvitund kennara. Kennarastarfið er flókið og erfitt en sé því sinnt af alúð og áhuga getur það jafnframt orðið skemmtilegasta starf í heimi. Nýjar kröfur eru settar á herðar kennara og telur Grossman (Barbetta, Norona og Bicard, 2005) að það að stjórna bekk sé meira krefjandi nú en nokkru sinni áður. Margir kennarar standi frammi fyrir fjölmennari bekkjum, nemendum sem koma frá heimilum sem eru undir miklu álagi og fjölbreyttari nemendahóp ef litið er til námslegar getu, bakgrunns og menningar. Það virðist þó vera að með réttum aðferðum sé hægt að koma til móts við nemendur og ná fram því besta í hverjum og einum. Til þess þarf samvinnu kennara innbyrðis sem og samvinnu heimilis og skóla.Ég er sammála fullyrðingum Fullan (Rúnar Sigþórsson, 2004) um að nútíðin, og ekki síður framtíðin, geri fjölmargar nýjar kröfur til kennara sem setji þá í þau spor að þurfa að eiga náið samstarf við samstarfsfélaga sína sem og aðila utan skólans.Þetta er hin nýja fagmennska sem nýútskrifaðir kennarar þurfa að fara með sem veganesti í framtíðina. Þetta er fagmennska sem umfram allt er samvinnumiðuð. Þegar ég útskrifast úr grunnnáminu tel ég námi mínu ekki lokið. Þetta verður aðeins fyrsta skrefið í starfsþroska mínum og vonandi get ég einnig hjálpað öðrum kennurum við það að þroskast sem fagmenn.

Hver eru viðhorf mín til nemenda, náms og skólastarfs?

Viðhorf mín til menntunar eru mótuð að miklu leyti vegna minnar eigin reynslu í skóla og kennslu. Ég tel að kennari skuli sýna hverju barni hlýju og taka á móti því eins og það er en ekki eins og hann vill að það sé. Kennarinn vinnur með börnum og unglingum sem öll hafa mismunandi viðhorf, ólíkar forsendur, áhugamál, drauma og markmið. Það er verk okkar að koma til móts við þá því dygð fagmanneskjunnar er að uppfylla siðferðilegar skyldur sínar og gera það vel.„Nemendur okkar eru óendanlega meira virði en fögin sem við kennum þeim.”

-McCarty, M. (e.d.).

Viðhorf mín til náms eru að allir nemendur okkar séu mismunandi og einstakir á sinn hátt. Til þess að koma til móts við þá alla er nauðsynlegt að beita aðferðum sem gera ráð fyrir því að einstaklingar séu mismunandi og staddir á mismunandi stöðum í námsferlinu. Það er þess vegna sem ég er hrifinn af fjölgreindahugmyndum Gardner og hugsmíðakenningu Dewey og Piaget. Gardner (Hafdís Guðjónsdóttir, 2005) heldur því fram að allir séu sterkir á einhverjum sviðum og þess vegna þurfi kennarar að skipuleggja kennslu m.t.t. sterkra hliða nemenda og styrkja síðan aðra þætti með fjölbreyttum vinnubrögðum. Ég tel að nemendur þurfi að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum því það auki á sjálfstraust þeirra. Með aukið sjálfstraust í einni grein, eykur það um leið sjálfstraust í öðrum greinum. Í skólanum á nemandinn að vera í brennidepli og miðdepill í sköpun nýrrar þekkingar og reynslu. Hugmynd Dewey um að börn læri með því að gera finnst mér því eiga vel við í skólastarfi.„Segðu mér og ég gleymi, sýndu mér og ég gæti munað, leyfðu mér að gera og ég skil”

-Kínversk speki. (e.d.)

Að mínu mati er heilmikið sem betur má fara innan skólakerfisins, en lang flest er vel gert. Ég ætla að nefna nokkra af þeim hlutum sem ég tel að betur mættu fara. Í starfi mínu sem fagmaður vil ég auka vægi listgreina og heimspeki. Ritlist, tónlist, leiklist auk heimspeki, siðfræði og gagnrýnnar hugsunar eru allt fög sem ég vil að fái verulegt vægi í skólanum. Lífsleikni finnst mér vera vannýtt fag sem fær allt of lítið vægi. Mér finnst að dans eigi að koma til jafns við íþróttakennslu í námi og að skák og óhefðbundnari kennsluaðferðir til að auka rökhugsun eigi að standa til boða í auknum mæli til þess að ná til fleiri nemenda. Ég tel að skólar þurfi að auka sveigjanleika og val, á öllum skólastigum og að lokum vil ég að kröfur verði auknar í kennaranáminu frekar en lenging á námstíma. Þannig útskrifum við hæfa fagmenn sem standast miklar kröfur skólasamfélagsins og kennarastéttin fær þá virðingu sem hún á skilið.

Hver er ábyrgð kennarans og hvert er hlutverk hans sem fagmanns?

Ábygð kennarans er gríðarleg í öllu skólastarfi. Tomlinson (2003) telur að kennari beri fyrst og fremst ábyrgð á því að nemendur séu öruggir og líði vel. Kennarinn þarf að sýna nemendum virðingu, hlusta á þarfir þeirra og skoðanir og taka tillit til þeirra. Hann þarf að gefa nemendum tækifæri á að þroskast og dafna í skólastarfinu og vera ákveðinn og með skýr markmið. Hann þarf að huga að hvað hentar hverjum og einum best og spyrja sig stöðugt: „Hvernig getum við bætt starf okkar?”En ég held að Trausti Þorsteinsson hafi hitt naglann á höfuðið með sínum rökum um hvað kennarar þurfi að uppfylla til þess að teljast til fagstétta.Meginröksemdin fyrir því að telja kennara til fagstétta er sú að kennarar þurfi að vera reiðubúnir til að takast á við síbreytilegar kröfur samfélagsins til skóla og menntunar og gegna leiðandi hlutverki við að skilgreina kröfur til góðra skóla og þar með til sín sjálfra sem fagmanna. Fagstéttarlegri stöðu fylgir ábyrgð og skyldur sem kennarar verða að axla ætli þeir að njóta virðingar. (Trausti Þorsteinsson, 2003, bls. 187).Reykjavík,April 10th 2010.Ingvi Hrannar Ómarsson

Previous
Previous

Personalised Professional Development with Twitter

Next
Next

How to come back a stronger teacher next year... balance.