Svör stjórnmálaflokkanna í Skagafirði 2022

Eins og ég sagði frá á Facecbook sé ég mikið af 🤳 myndum á samfélagsmiðlum af fólki í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hér í Skagafirði árið 2022, um lífshlaup þeirra og æviágrip, en voðalega lítið um hvað það ætlar að gera ef það verður kosið til valda 🤷‍♂️

Það skiptir mig minna máli hvernig frambjóðendur líta út, hverjum þau eru gift/-ur eða ekki eða hvar þau ólust upp heldur 👉 hvaða framtíðarsýn þú hefur fyrir svæðið?

Ég hafði samband við öll framboðin og óskaði eftir svörum við þessum 2 spurningum og svöruðu þau öll þessari fyrirspurn fljótt og örugglega sem var gaman að sjá

Spurningarnar voru:

  1. Hver eru áherslumálin?

  2. -Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.

  3. Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru.

  4. -Hvaða verkefni mynduð þið leggja minni áherslu á næstu 4 ár en hefur verið gert síðustu 4-8 ár?

  5. -Er eitthvað sem sem þið mynduð vilja hægja á? …hætta að gera? …hætta að leggja áherslu á? …taka af stefnuskrá Sveitarfélagsins?

Spurningarnar hér að ofan voru einfaldar og flokkarnir beðnir að forgangsraða því ekki er hægt að gera allt þó við vitum að flokkarnir styðja fleiri verkefni en spurningin var um fyrstu 3-5 verkefnin ef þau kæmust til valda.

Markmiðið m.a. með spurningunni var að fá forgangsröðun og hvað er efst í huga flokkanna. Framsóknarflokkurinn náði að forgangsraða og nefndi 5 verkefni sem þau vilja leggja áherslu á, Byggðalistinn og Sjálfstæðisflokkurinn nefndu 7 verkefni hvor. Vinstri Græn og óháð í Skagafirði nefndu hins vegar 24 verkefni (undir 4 "höttum" eins og þau sögðu) sem var töluvert yfir þeirri forgangsröðun sem ég vonaðist eftir að kæmi.

Með spurningunum var ég ekki að biðja um alla stefnuskrána og svöruðu 3 af 4 flokkum nálægt þeirri forgangsröðun sem ég óskaði eftir og settu 5-7 aðgerðir. Það er þó ljóst að stefnuskrá allra er ítarlegri og hvet ég fólk að kynna sér þær í heild sinni.

Hér að neðan má sjá svör framboðanna, en ég breytti aðeins uppsetningu hjá hverjum og einum og setti þetta upp í punkta til þess að svörin væru skýrari, en fékk þó staðfestingu á öllum framboðum á uppsetningu. Hægt er hins vegar að sjá svör framboðanna í heild í þessu skjali, eins og þau bárust þannig að fólk sjái svörin eins og þau komu til mín.

Byggðalistinn

Hver eru áherslumálin? 

-Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.

  1. Nýr leikskóli á Sauðárkróki, 

  2. Leik- og grunnskólabygging í Varmahlíð.

  3. Bygging íþróttahúss og endurbætur á grunnskólanum á Hofsósi.

  4. Aðstaða til list-, verk- og raungreina sé í takt við þarfir og kröfur nútímans um allt hérað.

  5. Ráðast í endurbætur á lagnakerfi og ljósleiðaravæðingu þar sem þörf er á.

  6. Þýsta á ríkið að framkvæmdir við (við)byggingu verknámshúss FNV

  7. Göng undir Öxnadalsheiði

Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru. 

-Er eitthvað sem sem þið mynduð vilja hægja á? …hætta að gera? …hætta að leggja áherslu á? …taka af stefnuskrá Sveitarfélagsins?

Draga úr framkvæmdum við önnur verkefni en framkvæmdir á grunnstoðum samfélagsins á meðan verið er að sinna framkvæmdum við leik- og grunnskóla.

Framsókn í Skagafirði

Hver eru áherslumálin? 

-Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.

Framsókn leggur áfram áherslu á uppbyggingu grunninnviða samfélagsins þannig að Skagafjörður verði ákjósanlegur búsetuvalkostur fyrir fólk. Þetta ætlum við meðal annars að gera með því að:

1.   Halda áfram mikilli áherslu á skipulagsmál með úthlutun lóða í huga í öllum þéttbýliskjörnum sem henta uppbyggingu íbúða að ólíkri stærðargerð og til fjölbreyttra nota, til einstaklinga, verktaka, leigufélaga, húsnæðissamvinnufélaga, húsnæðissjálfseignastofnana og til íbúða sem njóta hlutdeildarlána.

2.   Hlúa áfram að þörfum barnafjölskyldna með því að tryggja leikskólavistun barna frá 12 mánaða aldri eins og verður nú á árinu 2022, auk þess að styðja við metnaðarfullt starf grunnskólanna í Skagafirði

3.   Halda áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja í Skagafirði, m.a. ljúka framkvæmdum við sundlaug Sauðárkróks, hefja framkvæmdir við nýtt íþróttahús á Hofsósi og vinna að stefnumótun um næstu skref í samvinnu við UMSS.

4.   Vinna að því í samvinnu við ríkisvaldið að byggja ný hjúkrunarrými á Sauðárkróki og fjölga plássum í dagdvöl aldraðra.

Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru. 

-Er eitthvað sem sem þið mynduð vilja hægja á? …hætta að gera? …hætta að leggja áherslu á? …taka af stefnuskrá Sveitarfélagsins?

Það er svo að sveitarstjórnarmenn mega aldrei slaka á í þeirri viðleitni að gera gott samfélag enn betra. Þar gildir einu hvort átt er við eflingu þjónustu, skynsemi í rekstri, framkvæmdir sem styðja við farsæld samfélagsins, hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu, áherslu á fjölbreytta atvinnuuppbyggingu o.s.frv. 

En vissulega væri gott ef næsta kjörtímabili einkenndist ekki af ófyrirséðum atburðum og við værum laus við heimsfaraldur kórónaveiru, háskaveður og annað slíkt en þess í stað væri hægt að einbeita sér að framfylgni mála í stöðugra umhverfi.

Vinstri Græn og óháð Skagafirði

Hver eru áherslumálin? 

-Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.

Stjórnsýsla

  1. Setja á fót mælaborð á heimasíðu sveitarfélagsins með sýnileika á bæði framkvæmdum sveitarfélagsins og úrvinnslu íbúafunda. 

  2. Auka vægi ungmennaráðs og öldungaráðs í nefndum sveitarfélagsins.

  3. Auka framboð íbúða húsnæðissamvinnufélaga án hagnaðarsjónarmiða í öllum þéttbýliskjörnum.

  4. Tryggja að lóðir standi til boða í öllum þéttbýliskjörnum.

Fólk og samfélag

  1. Að lögbundinni þjónustu sé sinnt vel um allt hérað og að við göngum lengra í valkvæðri þjónustu sem skapar jöfnuð og raunverulega heilsueflandi og fjölskylduvænt samfélag

  2. Stórbæta þjónustu við eldra fólk með staðbundinni matarþjónustu og stuðningi óháð búsetu. 

  3. Auka endurhæfingu í heimahús og almennt framboð af hreyfingu fyrir aldraða

  4. Sjá til þess að allir geti elst í sinni heimabyggð. 

  5. Fjölga þjónustuíbúðum fyrir aldraða og hraða byggingu hjúkrunarheimilis, en Skagafjörður er með lengstan biðlista á landinu eftir slíkum rýmum.

  6. Tryggja fjölbreytileika í félags-, tómstunda-, íþrótta- og tónlistarstarfi svo allir geti fundið eitthvað við allra hæfi. 

  7. Öll börn eiga að njóta fjárstuðnings við tómstunda og íþróttaiðkun, frá 0 - 18 ára en ekki einungis frá 5 - 18 ára eins og nú er. 

  8. Halda áfram að hækka hvatapeninga í takt viðverðlagsþróun.

  9. Vinna að stefnumótun í íþróttamálum í samstarfi við UMSS og aðra hlutaðeigandi aðila, kortleggja vel hver þörfin er og forgangsraða verkefnum með fólkinu sem að íþróttunum koma.

  10. Að reiðhöllin Svaðastaðir verði skilgreind sem íþróttamannvirki og viðhaldið sem slíku.

Fræðslumál

  1. Afnema leikskólagjöld í áföngum og tryggja að öll börn komist inn á leikskóla við 12 mánaða aldur í sínu nærumhverfi. 

  2. Auka sveigjanleika, svigrúm og stöðugildi starfsmanna leikskólanna þar sem álag er gríðarlega mikið á þessum mikilvægu vinnustöðum.

  3. Að matur sé eldaður á staðnum í öllum skólum og skólastigum í firðinum eftir gildum heilsueflandi grunnskóla. 

  4. Byggja bæði gróðurhús og skólahreystibrautir við grunnskólana sem og nauðsynlegt viðhald á skólabyggingum, sérstaklega A-álmu Árskóla. 

  5. Við viljum endurbyggja Varmahlíðarskóla með fjölbreyttum vinnurýmum fyrir nemendur en ekki einungis hefðbundum kennslustofum með borðum og stólum. Þar er sannarlega tækifærið núna til að gera vel og horfa til framtíðar. 

  6. Hraða framkvæmdum við fjölnota iðnnámshús í FNV

  7. Tryggja viðunandi vinnuaðstöðu fyrir nemendur og kennara Tónlistarskóla Skagafjarðar.

Menning

  1. Ungmennahús fyrir tómstundastarf 16+ ára er mjög þarft fyrir unga fólkið okkar og þarf að koma slíkri aðstöðu fyrir í húsnæði í eigu sveitarfélagsins.

  2. Stuðla þarf að uppbyggingu menningarhúss á Sauðárkróki 

  3. Hlúa að menningararfi Bifrastar og bæta þar aðstöðu og styðja við stofnun menningarfélags Skagafjarðar og sýna stuðning við samfélagslega viðburði til að auðga menningarlíf og skemmtun Skagfirðinga.

Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru. 

-Er eitthvað sem sem þið mynduð vilja hægja á? …hætta að gera? …hætta að leggja áherslu á? …taka af stefnuskrá Sveitarfélagsins?

  1. Engar áhættufjárfestingar heldur sinna lögboðnum og valkvæðum verkefnum sveitarfélagins vel fyrir alla íbúa. 

  2. Ekki greiða stöðugildi starfsmanna sem þjóna til borðs á veitingastað í samkeppni við aðra veitingastaði héraðsins eins og staðreyndin er nú með starfsmenn upplýsingamiðstöðvar sem staðsettir eru hjá 1238 á Aðalgötu 21. 

  3. Kanna hvort að lögfræðilegar forsendur samnings sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf standist og rifta samningi til 30 ára ef svo er ekki.

  4. Við viljum ekki línulegar hækkanir um hver áramót á leikskólagjöld, á fæði í leik- og grunnskólum eða hækkun á leigu félagslegra íbúða.

  5. Við viljum ekki virkjanaáform í Jökulsánum heldur vernda sérstöðu þeirra. Við styðjum því áform í Rammaáætlun 3 að setja Jökulárnar í vernd og tökum ekki undir áform meirihluta um að halda Jökulsánum í biðflokki.

Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði

Hver eru áherslumálin? 

-Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.

Áframhaldandi uppbygging leik- og grunnskóla og rekstur þeirra,

  1. Leikskóli og viðhald skóla í Varmahlíð, 

  2. Íþróttahús og viðhald skóla á Hofsós, 

  3. Tónlistarskóli við Árskóla

Íþrotta-og tómstundastarf

  1. Áframhaldandi uppbygging íþróttamannvirkja í samstarfi við íþróttahreyfinguna, 

  2. Uppbygging öflugs tómstundastarf fyrir ungmenni og eldri borgara.  

Sorpmál

  1. Koma sorpmálum í ásættanlegt horf.

Innviðir og fjárfesting

  1. Vera með skipulag og grunninnviði klára fyrir íbúa og fjárfesta t.d. vegna hótelbyggingar eða annarrar starfsemi.

Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru. 

-Er eitthvað sem sem þið mynduð vilja hægja á? …hætta að gera? …hætta að leggja áherslu á? …taka af stefnuskrá Sveitarfélagsins?

Í stefnuskrá okkar eru enginn mál sem að við getum ekki staðið við eða treystum okkur ekki til að framkvæma og sýnum ábyrgð í loforðum. Því er hægt að segja að þetta er í forgrunni, punktar hér fyrir ofan, án þess að skerða önnur mál þá er þetta það sem þarf að koma í lag hið fyrsta.

Síðan eru önnur verkefni sem eru háð því að ríkið komi að. Má þar m.a. nefna menningarhús á Sauðárkróki og ætti undirbúningur að því verkefni að fara af stað á þessu ári, stækkun á hafnarsvæði á Sauðárkróki og viðhald tengivega í héraðinu sem eru margir hverjir í slæmu ásigkomulagi . Þarna munum við nýta okkar krafta til að ýta þessum málum áfram. 

Að lokum frá Ingva Hrannari

Það var gaman að sjá áhuga allra flokka að svara þessari fyrirspurn og von mín með þessu að taka saman þau áherslumál sem flokkarnir eru með. Að sjálfsögðu er stefnuskráin þeirra stærri, en ég vildi vita hver áherslumálin væru. Það er eitt að birta stefnu sem hljómar vel og allir geta verið sammála um, en það sem vantar oft á tíðum að mínu mati aðgerðaáætlun sem er forgangsröðuð, tímasett og gert ráð fyrir fjármagni. Einnig vill svo verða að enginn vill segja hvað eigi að gera minna af.

Að lokum vona ég að þetta hjálpi fólki að taka ákvörðun, en líka að halda fögrum loforðum að stjórnmálafólkinu á næstu 4 árum, en ég þakka þeim fyrir að bjóða fram sína krafta og vona að við sjáum uppbyggingu áfram hér í Skagafirði.

Ingvi Hrannar

Previous
Previous

Í hvað erum við að flýta okkur? Ofuráhersla á bóklega færni ungra barna dregur úr hæfni þeirra í því sem mestu máli skiptir

Next
Next

Skuggadagur skólastjórnenda 2022