Framtíðin er ekki eins og hún var

Fyrir nokkrum vikum hóf ég störf sem kennsluráðgjafi við Fræðslusvið Skagafjarðar í skólaþróun og tækniinnleiðingu grunnskólanna. Eitt af mínum fyrstu verkum var að halda erindi á Fræðsludegi Skagafjarðar fyrir starfsmenn leik-og grunnskóla sveitarfélagsins. Upphaflega átti erindið mitt að heita: 'Spjaldtölvur í skólastarfi' og bjuggust líklega flestir í salnum við því að fyrirlesturinn snérist um tækni. En ég ákvað að fjalla fyrst um grundvallarspurningar sem mér finnst að sé mikilvægara að svara áður en við tölum um hvaða tæki við eigum að kaupa, hve bestu öppin eru, hvernig við fjármögnum þetta og höldum svo að skólastarfið muni gjörbyltast við það eitt að fá spjaldtölvur inn.Spurningarnar eru:

  1. Til hvers er skóli í heimi þar sem nemendur okkar geta svarað flestum spurningunum með tæki í vasanum sínum?
  2. Hvað viljum við að börnin okkar læri og mun raunverulega skipta máli þegar fram líða stundir? Er það að geta munað og endurtekið sem mun skila okkur áfram eða er mikilvægara að kunna að nota tæknina og tengslanet til að finna það sem við þurfum að vita þegar við þurfum það?
  3. Fyrir hvaða framtíð erum við að undirbúa nemendur okkar?

Hér má sjá fyrirlesturinn í heild sinni (veljið HD til þess að sjá glærurnar) en punkta úr honum og frekari vangaveltur má sjá neðar í færslunni:Framtíðin er ekki eins og hún var. from Ingvi Hrannar on Vimeo.Í dag eru flestir skólar sem eru að fjárfesta í nýjustu tækni að gera það án þess að breyta hugsunarhætti eða kennsluháttum nema að örlitlu leyti. Ég er búinn að sjá víða í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi að markmiðin, ef þau eru einhver, eru bara að gera það sem við erum að gera áður nema bara hraðar. Láta þau glósa hraðar, auðvelda kennaranum að fara yfir krossapróf, lesa bækur af spjaldtölvum og fylla inn í vinnubækur í spjaldtölvunni ennþá með því yfirmarkmiði að bæta árangur í samræmdum prófum.Þetta tel ég kolranga leið.Ef markmiðið skólastarfs er samræmd próf er miklu betra að sleppa allri tækni, þróa menntakerfið okkar í átt til þeirra þjóða sem eru efstar í PISA, eins og Kínverja sem láta börnin hafa blýant, einn stól og borð, mikið heimanám og láta þau muna og endurtaka efni inni í lokaðri skólastofu með kennara sem lítur á krakkana sem þiggjendur þekkingar en ekki þátttakendur í að móta hana. Skólastofu sem býður ekki uppá samskipti eða samvinnu, skapandi eða gagnrýna hugsun heldur vill að allir séu eins og passi inn í sama mót.img_0375Þessi samræmda leið þar sem allir fá jafn mikið af öllu, á sama tíma með sömu aðferð og aðeins örfáar greinar mældar á einfaldan og fljótlegan hátt er fáránleg og brenglar sýn kennara, foreldra og ekki síður nemendanna sjálfra á hvað raunveruleg, góð menntun sé. Raunveruleg, djúp menntun verður ekki mæld á krossaprófi heldur 10-20 árum eftir að henni lýkur formlega.Af hverju eitthvað þarf að breytast er miklu mikilvægara en hvernig það breytist og því miður eru nær öll skólakerfi að einbeita sér að því hvernig þeir ætli að breyta en svara ekki af hverju það á að breytast.Stærsta hindrunin í þessari breytingu eru, samkvæmt Yong Zhao „hugmyndir okkar um hvað góð menntun sé og togkraftur núverandi kerfis.” Eins mikið og við viljum horfa á mikilvægu hlutina sem ómögulegt er að mæla með samræmdu krossaprófi, horfum við alltaf til gömlu prófanna sem stjórna skólastarfinu og segja okkur með nákværmri tölu hvar börnin okkar standa. Þessar tölur eru öryggi í því að við séum að gera rétt og þetta eru aðferðir sem voru notaðar í okkar námi í grunnskóla. En sannleikurinn er sá að rannsóknir sýna að engin tengsl séu á milli hárra einkunna á slíkum prófum og velgengni í lífinu síðar meir. Það mikilvægasta er erfitt að meta með samræmdum aðferðum á einfaldan og fljótlegan hátt og því er það ekki hluti af prófa ferlinu.Skólakerfið hefur að mestu leyti verið óbreytt síðan Frederick Taylor setti upp fyrstu “verksmiðju” skólana fyrir um 150 árum þar sem megintilgangurinn var að fá börnin til að hlýða, fylgja bjöllum sem hringdu og vera þjálfuð til þess að vinna í verksmiðju. Það var almenn trú að samfélag eða þjóð þyrfti aðeins örfáa til þess að stjórna og taka ákvarðanir og hafa skoðanir og hinir ættu að fylgja leiðbeiningunum þeirra.school-factoryÞó við séum að gera margt öðruvísi í skólunum í dag er kerfið í grunninn byggt upp á sama hátt.

  • Börnin eru ennþá útskrifuð í árgöngum og eiga oft það eitt sameiginlegt að vera fædd sama ár.
  • Við teljum ennþá að best sé að kenna öllum allt, jafn mikið af því, á sama tíma og oftast með sömu aðferð.
  • Bjöllur stjórna því hvernær við hefjum og ljukum störfum.
  • Leggjum ennþá ofuráherslu á að muna og endurtaka og þekkingin er svo mæld með skriflegu prófi sem einfalt er að fara yfir.
  • Við erum að gera það sama og áður nema bara að reyna að gera það hraðar og skilvirkara.

Við setjum skólakerfið upp eins og verksmiðjur á meðan atvinnulífið spyr hvar fólkið sé sem þau eru að leita að. Ekki fólki sem getur setið í 8 tíma, þagað og fylgt leiðbeiningum heldur geta:

  • Unnið saman, hafa sjálfstraust til þess að takast á við breytingar og ný verkefni.
  • Geta fundið þau svör sem þau þurfa þegar þau þurfa og leyst verkefni sjálfstætt.
  • Geta miðlað upplýsingum, eru forvitin, hafa ímyndunarafl til þess að búa til eitthvað nýtt og frumkvæði til að framkvæða það.
  • Eru skapandi, gagnrýnin, góð í samskiptum, glöð og hamingjusöm.

Á að breyta einhverju eða bara bæta úrelt kerfi?Verið er að breyta/bæta nær öllum skólakerfum í heiminum og nær öll skólakerfi í heiminum eru að fara sömu leiðina við að "bæta" skólastarf, þ.e. að gera það gamla hraðar í heimi sem er bara hraðari. Þetta er  verkmiðjumódel þar sem markmiðið er að kenna til prófs og skólastarfið er mælt og metið með útkomum úr prófum.Það er til önnur leið sem margir telja að muni reynast nemendum okkar miklu betur til þess að takast á við breytt samfélag og framtíð sem er ekkert lík þeirri sem gamla kerfinu er ætlað að undirbúa okkur fyrir. Í þessu skólakerfi er verið að gera hlutina öðruvísi í heimi sem er allt annar en hann var og verður allt annar en hann er. Þetta er svokallað garðyrkjumódel þar sem einstaklingar fá að njóta sín á eigin forsendum.Leiðirnar tvær:502px-Factory.svgVerksmiðjumódel þar sem samræmd próf eru markmið menntunar. Leiðin sem nær allir skólar og skólakerfi eru að fara.Allir eins, einangrun og samkeppni, börnin eiga að mæta þörfum skólans:

  1. Allir eru eins og læra það sama og jafn mikið af því. Verksmiðja
  2. Grunnar spurningar (hægt að Googl-a svörin … ef það væri leyft).
  3. Samvinna er svindl.
  4. Tæknin notuð til að gera það sama, en hraðar.
  5. Nemendum sagt hvað eigi að læra og áhersla á að muna það. Geta aldrei lært meira en bókin segir eða kennarinn kann. 
  6. Vinna verkefni sem engu skipta og fara í skúffurnar eða ruslið.
  7. Börnin eiga að mæta þörfum skólans

Samræmd próf sem markmið menntunar og forgangsröðun á milli greina (námskráin þrengd):Skólastarf sem svipar til þess sem við fórum í gegnum með lítilli sem engri tækni, einum kennara, einni bók/blaði og 40-80 mínútum í hverju fagi í einu. Árangurinn er svo mældur með samræmdum krossaprófum og skólarnir síðan bornir saman.Bara það sem er á prófunum er mikilvægt, öðru ýtt til hliðar. Nemendur teknir út úr því sem þau geta blómstrað í til að ná hinum “mikilvægu” greinum.Þeir sem ná ekki þessu “mikilvægu greinum" eru oft tekin út úr starfi sem þau hafa raunverulega gaman af eins og tónlist, leiklist, myndlist, dans, íþróttum, tækjum, tækni, forritun, klifri, söng, smíðum, saumum svo eitthvað sé nefnt og sett í meiri þjálfun í hinum samræmdu “mikilvægari" greinum. Þau eru mikilvæg en ekki nóg, og ekki mikilvægari en allt annað. Námskráin er þrengd og útkoman verður fullt af unglingum sem koma út úr skóla sem hafa ekkert sjálfstraust því það sem þau voru góð í í skóla var ekki metið eða að þeim var bannað að gera það á þeim rökum að þau muni aldrei fá vinnu við það.Þetta er kolrangt í dag. Því meira sem við samræmum alla þekkingu því minna virði verður hún. Það er verið að leita að starfsfólki sem kann eitthvað annað…. þó vanalega er þetta fólk aldrei fengið í vinnu því þau eru fólkið sem býr til vinnu fyrir aðra og skapar eitthvað nýtt!Samræmd próf eru skelfileg hugmynd, þó aðeins betri útfæsla núna en var en samt ekki nóg. Prófin gera það að verkum að námskráin er þrengd og þau rugla hugmyndir okkar, skólastjórnenda, pólitíkusa, nemenda og foreldra um hvað sé raunverulega það mikilvægast. Ég legg til að skólar fái samræmdu prófin send á hverju ári, þeir leggi þau fyrir þegar þau vilja, fyrir þá sem þau vilja á þann hátt sem þau vilja, leyfa nemendum að taka þau eins oft og þau vilja og síðan fara kennararnir yfir prófin samdægurs og við sjáum og getum notað niðurstöðurnar strax… ekki nokkrum mánuðum seinna sem tölur á blaði.Læsi á 19. og 20. öldinni-þröng skilgreining m.v. tæki fortíðar:

  1. Læsi er að geta lesið texta í bók og handskrifað á blað.
  2. Leshraði er aðalmálið því þá kemstu lengra á prófinu.
  3. Gera einföld, ljósrituð verkefni sem litlu skipta.
  4. Áhersla á að muna það sem sagt er til að endurtaka seinna
  5. Læs m.v. samræmd próf - ólæs að öðru leyti.

Kennarar kenna, nemendur læra.

  1. Kennarar vita best og náminu lauk við útskrift.
  2. Nemendur taka við þekkingu. 
  3. Skólinn segir þér hvað þú átt að læra. Þekkingin er þar og skólinn veit best hvað börnin þurfa að vita, hvenær og hvernig.
  4. Starfsfólk er hærra sett. Kennarar eru á kennarastofunni, nemendur á göngunum og bókasafni.
  5. Endurmenntun er eitthvað sem starfsfólk er sent á gegn vilja sínum.
  6. Starfsfólk notar ekki tækni og vill banna hana fyrir nemendur
  7. Kennarar prófa sjaldan eitthvað nýtt og taka ekki áhættur.
  8. Fólk er sammála um allt og skólaumhverfið einkennist af hlýðni, undirgefni og stöðnun.

tree_PNG212Garðyrkjumódel þar sem horft er lengra en næsta samræmda próf, allir fá að blómstra á sínu sviði og kennt að vinna saman. Leiðin sem fæstir þora að fara. Allir einstakir + samvinna, skólinn á að mæta þörfum barnanna.:

  1. Allir eru einstakir og eins mikið og þau þurfa/vilja hverju sinni. Garðyrkja.
  2. Djúpar spurningar sem kennarinn veit ekki alltaf svarið við.
  3. Nemendum kennt að vinna saman.
  4. Tæknin notuð til að gera nýja hluti sem voru ómögulegir áður.
  5. Nemendum kennt hvernig þau eigi að læra og hvernig þau sækja og greina þá þekkingu sem þau vilja þegar þau þurfa. Geta lært allt.
  6. Nemendur leysa raunveruleg vandamál og spyrja spurninga í staðinn fyrir að muna og endurtaka einangraðar staðreyndir. 
  7. Skólinn á að mæta þörfum barnanna.

Færni til framtíðar (lykilhæfni) um það sem skiptir raunverulega máli og engin forgangsröðun á milli greina:Börn fá að njóta sín, fá að velja hvað þau fara í og list-og verkgreinar eru jafn mikilvægar og aðrar… ekki greinar sem þú mátt taka börn úr ef þau ná ekki hinu “mikilvægara"Árangur af raunverulega góðu formlegu skólastarfi er ekki mælt á meðan á því stendur heldur 10-20 árum eftir að því lýkur. Þá er hægt að sjá hvernig tókst til.Nú eru það C-in fjögur fyrir 21.öldina eða 'the 4Cs of 21st century learners' sem er að taka yfir sem nauðsynlegustu þættir í menntun barna og unglinga og Lykilhæfnin er í takt við það en ég hef bætt við listann nokkrum atriðum.Færni til framtíðar - hvað við ættum að leggja áhersla á:

  1. Samskipti, tjáning og miðlun (var og er stundum kallað truflun)
  2. Samvinna (var og er stundum kallað svindl)
  3. Skapandi hugsun (þýddi að þú áttir erfitt með að fylgja fyrirmælum)
  4. Gagnrýnin hugsun (þýddi að þú varst bara svolítið erfiður)
  5. Kunna að finna, greina, skilja, nýta og miðla margskonar upplýsingum í flóknum heimi tækninnar.
  6. Bera ábyrgð og á eigin námi og geta metið það.
  7. Aðlögunarhæfni og geta leyst áður óþekkt verkefni.
  8. Sjálfstæði, sjálfstraust, sjálfsþekking og sjálfsstjórn.
  9. Forvitni og ímyndunarafl.
  10. Frumkvæði og geta búið til sín eigin verkefni

Læsi á 21. öldinni-víð skilgreining sem tekur til upplysinga-, tækni- og miðlalæsis:

  1. Í dag eru þarfir samfélagsins aðrar en áður og þú þarft ekki lengur bara að geta lesið heldur lesið til gagns, hlustað og vitað hvað var sagt, horft og skilið hvað er verið að meina, þorað að prófa og mistakast. Þú getur líka miðlað á mikilu fleiri vegu eins og sýna, segja, búa til og verður að kunna að miðla því.
  2. Lesskilningur er aðalmálið.
  3. Gera stærri, alvöru verkefni sem skipta máli fyrir þau og aðra.
  4. Áhersla á að kunna að ná sér í upplýsingar þegar þau þurfa.
  5. Til þess að vera læs á 21.öldinni í heimi þar sem upplýsingar eru alls staðar segir NTCE að þú sért læs þegar þú getur:

Notað tæknina, myndað tengslanet, spurt og leyst vandamál í samvinnu við ólíkt fólk annars staðar. Skilið og greint efni af ólíkum stöðum frá ólíkum miðlum á sama tíma. Búið til, gagnrýnt, greint og metið og miðlað tækni-texta (e.multi-media texts) auk þess að huga að þeirri siðferðilegri ábyrgð sem þetta flókna umhverfi krefst.Allir að læra.

  1. Kennarar vita stundum minnst og eru alltaf að læra.
  2. Nemendur eru þátttakendur í að móta sína þekkingu.
  3. Skólinn kennir þér hvernig þú átt að læra. Þekkingin er alls staðar og þú nærð þér í þá þekkingu sem þú vilt, þegar þú vilt, á þann hátt sem hentar þér best og miðlað henni á viðeigandi hátt. Það sem þú veist ekki núna geturu vitað á 30 sekúndum með nettengingu eða tengslaneti.
  4. Allur skólinn er lærdómssamfélag. Starfsfólk er ‘Lead Learners’ og fyrirmyndir í námi. Starfsmenn eru á bókasafninu að lesa og læra.
  5. Endurmenntun er hluti af daglegu starfi og gerist hvar sem er.
  6. Starfsfólkið notar tækni til þess að hjálpa sér í námi og kennslu.
  7. Allt starfsfólkið er tilbúið að taka áhættur, vaxa og læra.
  8. Fólk ræðir og deilir og skólaumhverfið einkennist af nýsköpun og samvinnu.

--------Að lokum:Spurningin sem við verðum að svara er: Til hvers ætlum við að fá tæknina inn í skólana? Er það til þess að gera meira af því sama eða til þess að gera eitthvað annað?…  Ef við veljum fyrri leiðina, þá sömu og allir aðrir þar sem nám er staðlað þá getum við alveg sleppt tækninni, og kaupum bara blýanta og blöð, förum að ljósrita vinnublöð og lokum hurðunum á skólastofunni.Ef við veljum þá seinni, sem er erfiðari, fáir þora að fara og krefur okkur um það að spyrja spurninganna:

  1. Til hvers er skóli í heimi þar sem nemendur okkar geta svarað flestum spurningunum með tæki í vasanum sínum?
  2. Hvað viljum við að börnin okkar læri og mun raunverulega skipta máli þegar fram líða stundir? Er það að geta munað og endurtekið sem mun skila okkur áfram eða er mikilvægara að kunna að nota tæknina og tengslanet til að finna það sem við þurfum að vita þegar við þurfum það?
  3. Fyrir hvaða framtíð erum við að undirbúa nemendur okkar?

Ef við veljum þá leið þá getur tæknin spilað stórt hlutverk og hefur tilgang, annars er best að gera meira af því gamla.Við þurfum að skilja að þetta er heimurinn sem nemendur okkar alast upp í, hann er ekki eins og hann var og verður ekki eins og hann er og við verðum að undirbúa nemendur undir hann. Þetta er ekki auðvelt, sérstaklega þegar það eru margir sem halda dauðahaldi í núverandi kerfi því það virkaði ágætlega í heimi þar sem ekkert internet var, flestir voru að undirbúa sig fyrir einfalt starf í heimabyggð og skólinn var eini staðurinn þar sem þekkingin var.Að fara gegn straumnum af því þú veist að það er rétt og eitthvað sem þarf að gera er ekki auðvelt. Margir munu efast og oftar en ekki eru nýju aðferðirnar mældar gegn gömlu aðferðunum m.a. með gömlum prófum. Ef þú ert að gera eitthvað nýtt til þess að fá aðrar niðurstöður en áður er ekki skrítið að það komi ekki vel út ef miðað er við gömlu markmiðin. Ástæðan fyrir því að við erum að gera eitthvað nýtt er ekki til þess að fá betri útkomu úr gömlu prófunum heldur til þess að fá nýjar niðurstöður í takt við nútímann. Breytum rétt af því við vitum að það er rétt. Það kostar vissulega pening að fá réttu tækin inn í skólana okkar en það kostar okkur meira að gera það ekki. Þá útskrifast frá okkur nemendur sem eru ekki tilbúnir að takast á við þessa nýju framtíð með réttum verkfærum. Það er ekki víst að við sjáum þessa framtíð, en okkar starf er að undirbúa nemendur fyrir framtíðina sína en ekki fortíðina okkar.

"If we teach todays students the same way we taught yesterdays students, we rob them of tomorrow." -John Dewey

Ingvi Hrannar ÓmarssonGrunnskólakennari, frumkvöðull, 'Lead Learner' og tækniráðgjafi við Fræðslusvið Skagafjarðar.www.ingvihrannar.com@IngviHrannar@IngviOmarsson