„Frjálsa” skólavalið í framhaldsskóla og aðskilnaður stétta
Eftir mjög góðar viðtökur við hugleiðingum mínum um jöfnunarkerfi í framhaldsskóla langar mig að segja aðeins nánar frá þeim afleiðingum sem aðskilnaðarstefna við inntöku í framhaldsskóla hefur við að viðhalda (og ýta undir) félagslega lagskiptingu og mismunun í íslensku samfélagi, í andstöðu við gildandi menntastefnu.
Sem betur fer eigum við hér á landi hæfa rannsakendur sem hafa kynnt sér þessi mál og birtist ritrýnd grein í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun í maí s.l.
Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja hvort og þá hvernig skóla- og námsleiðaval viðheldur félagslegri lagskiptingu og mismunun í íslensku samfélagi í andstöðu við gildandi menntastefnu. Ég hvet ykkur til þess að lesa hana alla, en ef þið hafið ekki tíma í það, þá gerði ég það fyrir þig og tek hér að neðan saman aðalatriðin.
Hér eru lykilatriðin að mínu mati
Hvað er frjálst skólaval, eins og viðgengst í íslenskum framhaldsskólum?
Stefna um frjálst skólaval sprettur úr farvegi nýfrjálshyggju og tengist hugmyndum um markaðssetningu og einkavæðingu menntunar (Dolton, 2003; Dovemark og Nylund, 2022).
Stefnan grundvallast á að nemendur (og foreldrar þeirra) hafi rétt til að velja sér skóla og að fjölskyldur hafi jafn mikla möguleika og getu til að velja þann framhaldsskóla sem best hentar framtíðaráformum ungmenna.
Hvenær fór þetta að gerast á Íslandi?
Á Íslandi má finna stigveldi framhaldsskóla og námsleiða sem virðist nátengt og er viðhaldið af inntökukerfi sem byggir á hugmyndum um frjálst skólaval (e. free school choice).
Í upphafi 21. aldar var frjálst skólaval innleitt á Íslandi en fyrir þá breytingu tók hver skóli fyrst og fremst inn nemendur innan skilgreinds upptökusvæðis. Landið var þá skilgreint sem eitt upptökusvæði (með reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla nr. 98/2000) og þannig var opnað fyrir samkeppni.
Reglugerðir sem um inntöku í framhaldsskóla veita stjórnendum framhaldsskóla frelsi til að setja eigin stefnu um inntöku nemenda.
Árið 2016 bættist eftirfarandi klausa við reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, (nr. 1150/2008).:
Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjanda er framhaldsskóla einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa (reglugerð nr. 1199/2016 um breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, nr. 1150/2008).
Hér er ekki minnst á þátttöku eða árangur í verk- eða starfsnámi og ljóst er á þessari klausu að félagslegur og efnahagslegur bakgrunnur nemenda er gerður eftirsóknarverður því ekki hafa allir nemendur og foreldrar þeirra tök á að borga fyrir íþrótta- og tómstundaiðkun.
Þetta frjálsa skólaval á helst við um nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu og hafa háar einkunnir í bóknámi við lok grunnskóla. Þeir skólar sem raunverulega höfðu val um nemendur hefðbundnir bóknámsskólar: Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Verslunarskóli Íslands.
Bóknámsskólar með hátt höfnunarhlutfall tvöfalda jafnvel vægi ákveðinna bóknámsgreina þegar nemendur eru valdir inn í skólana (Elsa Eiríksdóttir o.fl., 2018, 2022).
Áhrif þessarar stefnu stjórnvalda á ingildingu, jafnrétti og gæði náms
Frjálst skólaval stuðlar að og viðheldur félagslegri aðgreiningu á milli hópa og getur einnig dregið úr gæðum náms.
Frjálst skólaval ýtir undir ákveðna félagslega pólun sem eykur kerfislæga mismunun og aðgreiningu skóla (e. school segregation) (Ball og Youdell, 2008; Lolle og Rasmussen, 2022; West, 2006), félagslegrar aðgreiningar og lagskiptingar sem er í andstöðu við hugmyndir um inngildingu og jafnrétti til náms.
Niðurstöður erlendra rannsókna benda til að það stuðli að einsleitni nemendahópa og félagslegri lagskiptingu (Dovemark o.fl., 2018; Dovemark og Nylund, 2022; Fjellman o.fl., 2018).
Skólar keppa um nemendur sem styrkir stöðu forréttindahópa og ákveðinna skóla.
Þeir framhaldsskólar sem ganga langt í að nýta sér stefnu um frjálst skólaval og gera stífar inntökukröfur líta fram hjá ríkjandi hugmyndafræði um inngildingu inngildingu með því ýta þeir undir aðgreiningu nemenda í stað þess að laga skólastarfið að fjölbreyttum nemendum eins og kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2012).
Eftir því sem skólar leggja meiri áherslu á að ná til tiltekins hóps því einsleitari verður nemendahópurinn með tilliti til stéttar og uppruna og meiri líkur á að samsetning hans haldist óbreytt (Dovemark og Holm, 2017).
Fyrirkomulag inntöku leiðir til ólíkrar samsetningar nemendahópa eftir skólum. Í þeim skólum þar sem valið er úr nemendum er staða hópsins ekki einungis sterkari námslega heldur einnig félags- og efnahagslega auk þess sem hópurinn er líklegri til að stefna á háskólanám. (innskot frá IH: Sem þýðir að í öðrum skólum safnist saman nemendur sem eru veikari námslega, og í verri stöðu bæði félags- og efnahagslega).
Áhrif foreldra á inntöku í ákveðna framhaldsskóla
Skólaval fer almennt ekki fram á jafnræðisgrundvelli heldur tengist að miklu leyti fjölskyldubakgrunni þar sem efri og millistétt eru líklegri en lægri stéttir til að hafa vilja og getu til að skilja og nýta sér frelsið til að velja skóla.
Áhrif foreldra eru óumdeilanleg í skólavali og ljóst að félagsleg staða foreldra í efri stéttum gegna mikilvægu hlutverki í að standa vörð um ríkjandi kerfi (Ball og Vincent, 1998).
Rannsóknir sýna að nemendur með sterkari félags- og efnahagslegan bakgrunn hafi betri aðgang að upplýsingum, aðstoð, úrræðum og valmöguleikum í gegnum sterkara tengslanet (Ball o.fl., 1996; Ball og Vincent, 1998; Connell, 2013; Dovemark o.fl., 2018; Dovemark og Rasmussen, 2022; Horvat
o.fl., 2003).
Börn foreldra í neðri stéttum eiga ekki heldur eins greiða leið í sérfræðistörf eins og börn foreldra í efri og millistéttum.
Í andstöðu við inngildingu og ýtir undir aðgreiningu
Afleiðingar stefnunnar ganga því þvert á grundvallarhugmyndafræði hennar um að nemendur hafi jafnan rétt til að velja sér skóla og nám, að fjölskyldur séu jafn hæfar til að velja þann framhaldsskóla sem best hentar framtíðaráformum ungmenna og að samkeppnin leiði til betri skóla (Musset, 2012; West, 2006).
Þetta er í andstöðu við hugmyndir um inngildingu (e. inclusion), jafnrétti til náms og heildstæða menntun fyrir alla óháð bakgrunni sem hefur verið meginstef íslenskrar menntastefnu um allnokkurt skeið.
Íslensk menntastefna leggur áherslu á jafnrétti til náms og inngildingu. Þrátt fyrir það geta framhaldsskólar sett sín eigin inntökuskilyrði og sumir þeirra velja inn nemendur út frá bóklegri frammistöðu við lok grunnskóla.
Í Danmörku hefur stefnan haft þær afleiðingar að sumir framhaldsskólar laða til sín fleiri nemendur en þeir geta sinnt á meðan aðrir skólar berjast í bökkum fjárhagslega þar sem aðsókn er of lítil, sem aftur hefur neikvæðar afleiðingar fyrir skólastarfið (Lolle og Rasmussen, 2022).
Hvernig birtist þetta í íslenskum skólum?
Skoðum þetta svart á hvítu hvernig nemendur skiptast í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu eftir félags- og efnahagslegri stöðu, og háskólamenntun foreldra.
Ákveðnir bóknámsskólar eru í sterkari stöðu til að velja inn nemendur með góðan námsárangur úr grunnskóla. Í þeim þremur skólum þar sem staða nemendahópsins var sterkust voru hóparnir jafnframt áberandi einsleitari en í öðrum skólum
Umtalsverður munur kom fram á bakgrunni nemendahópa framhaldsskólanna á öllum þremur mælikvörðunum sem voru til skoðunar, það er menntunarstigi foreldra (hærra menntunarstig foreldris) og hlutlægri og huglægri mælingu á félags- og efnahagslegri stöðu.
Að lokum
Niðurstöðurnar sýna glöggt að þegar námsárangur er skilgreindur á einsleitan hátt, eins og hér hefur verið dregið fram, þá er sú hugmyndafræði að nemendur (og foreldrar þeirra) hafi val um nám á framhaldsskólastigi brostin – sérstaklega þar sem inntaka nemenda fer fram í samkeppnisumhverfi.
Inntökukerfi framhaldsskóla á Íslandi stuðlar að aukinni félagslegri lagskiptingu og aðgreiningu og skipting nemenda í ólíka framhaldsskóla eftir enfahags- og þjóðfélagsstöðu má líta á sem beina afleiðingu af viðmiðum um inntöku.
Menntayfirvöld hafa gert nokkrar tilraunir til að breyta áherslum um inntöku nemenda í átt að auknu jafnræði án árangurs.
Núverandi útfærsla er undir áhrifum af aukinni markaðsvæðingu og samkeppni um nemendur. Hér er því skýr mótsögn við hugmyndina um inngildingu í íslensku menntakerfi.
Afleiðingin er sú að skólarnir, sérstaklega þeir sem sitja í efri lögum stigveldisins, taka ekki virkan þátt í að stuðla að jöfnuði og þjóna fjölbreyttum nemendahópum, og ýta þar með undir óréttlátt kerfi sem útilokar nemendur úr lægri stéttum.
Þess vegna er hugmyndin um frelsi í skólavali ekki veruleiki nema fyrir lítinn hluta nemendaárgangsins og þeir nemendur, sem skortir fjármagn og sterkan félagslegan bakgrunn, þurfa að draga úr væntingum sínum, velja „raunhæft“ og vona það besta.
Niðurstöðurnar benda til þess að inntökukerfin, í bland við markaðsvæðingu og hugmyndafræðina um dreifstýringu og frjálst val, styrki yfirstétt úr röðum bóknámselítunnar einkum þegar skólar keppa um nemendur með góðan námsárangur og sterkan félags- og efnahagslegan bakgrunn.
Niðurstöðurnar vekja flóknar spurningar um félagslegt réttlæti, nauðsyn þess að ræða markmið og tilgang menntunar og hvernig íhaldssöm viðhorf stýra og hafa áhrif á menntakerfið, þótt ríkjandi menntastefna boði hið gagnstæða.
Jafnframt sýna niðurstöðurnar að endurskoða þurfi inntökuskilyrði og valferla til að stuðla að jöfnum tækifærum allra nemenda, óháð stétt og stöðu.
Ef það er raunverulegur vilji stjórnvalda að stuðla að inngildingu, jöfnuði og jöfnum tækifærum þá er mikilvægt að skoða skólavalskerfið í heild.
Frá Ingva Hrannari: Takk Stella, Elsa og Guðrún fyrir þessa góðu og ítarlegu greiningu á stöðunni með rannsóknum ykkar. Þetta varpar enn betra ljósi á þá leiðir sem hafa viðgengist við að skipta þjóðfélaginu okkar í efri og lægri stéttir undir yfirskini einhvers konar frelsis og jafnréttis. Staðreyndin er hins vegar sú að hún er mótsögn við hugmyndina um inngildingu í íslensku menntakerfi, skóla án aðgreiningar og hvernig við stuðlum að jöfnum tækifærum allra nemenda, óháð stétt og stöðu.
Ég bendi á bloggfærslu mína um skólaeinkunn eða samræmda einkunn og hvet fólk að lesa hana til að átta sig á þessu enn betur og áhrif þess á grunnskólann