Skólaeinkunn eða samræmd einkunn? - Miðinn inn í eftirsótta framhaldsskóla

Undanfarna daga hefur sprottið upp umræða um einkunnir úr grunnskóla og inntöku í framhaldsskóla.

Í nýlegri frétt í Morgunblaðinu var enn einu sinni viðtal við Jón Pét­ur Zimsen, aðstoðarskóla­stjóra Rétt­ar­holts­skóla. Í þetta skiptið sagði hann m.a. að mun fleiri nem­end­ur út­skrif­ist með B í ein­kunn úr grunn­skól­um en ættu að gera (m.v. PISA), að afar lítið mark sé tak­andi á skólaeinkunnum, tölu­verð ein­kunna­verðbólga ríki í grunn­skól­um, það sé ekkert eft­ir­lit með ein­kunna­gjöf­inni né sam­ræm­ing á milli skóla og jafn­ræðis sé ekki gætt.

Til að leysa þetta hafa sumir kallað eftir því að hér þurfi því einfaldlega að samræma einkunnir úr grunnskóla (lesist: Samræmd próf þurfi að taka upp að nýju) og einfalda þannig kennurum og skólum lífið við þetta flókna námsmat að þurfa að gefa skólaeinkunnir í grunnskóla því ríkið sjái bara um það með fljótlegu prófi… Það þurfi nefnilega að auka jafnræðið. Ekki gleyma því.

Köfum aðeins dýpra því hér er svo margt sem er þess virði að skoða betur.

FYRRI PUNKTURINN

Ef við byrjum á fyrri punktinum hans Jóns Péturs um að (A) mun fleiri nem­end­ur út­skrif­ast með B í ein­kunn úr grunn­skól­um en ættu að gera og (B) að lítið mark sé takandi á skólaeinkunnum. 

A. FLEIRI ÚTSKRIFAST MEÐ B EN ÆTTU AÐ GERA

Ég vil byrja á því að segja að það er að minnsta kosti óábyrgt fyrir Jón Pétur að segja að færri ættu að útskrifast með B úr grunnskóla en gera það, því skólaeinkunn er ekki PISA einkunn og tekur skólaeinkunn á miklu víðara mati á nemandanum en PISA gerir eitt og sér. 

Fyrir þau sem ekki vita, eins og Jón Pétur, þá er PISA ekki einstaklingspróf þar sem þú getur sagt að einhver hafi fengið B á PISA, enda er hverjum einstaklingi ekki gefin einkunn eftir að hann lýkur PISA. 

B. LÍTIÐ MARK TAKANDI Á SKÓLAEINKUNNUM

Ég er ekki sammála Jóni Pétri í því að lítið mark sé takandi á skólaeinkunnum. Þveröfugt tek ég miklu meira mark á skólaeinkunn heldur en einkunn úr stuttu samræmdu krossaprófi því skólaeinkunn sýnir miklu heildstæðari mynd af nemanda því hún tekur inn miklu víðari þætti en bara einkunn úr samræmdu krossaprófi í málfræði, lestri og bókmenntaspurningum gerir.

En hvað er ‘skólaeinkunn’? 

Skólaeinkunnir í grunnskóla eru mat kennara á því hvernig hver nemandi stendur m.a. út frá samræmdum hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla og þeim viðmiðum sem skólinn hefur sett sér í skólanámskrá. Skólaeinkunn getur innihaldið ýmislegt annað en bara einkunn í prófi. T.d. getur kennari tekið inn í skólaeinkunnina hversu hart nemandi leggur að sér  í ákveðnu fagi, hvort hann mæti vel og tímanlega, hvort hann sýni samnemendum sínum og kennurum virðingu, hvort hann skili verkefnum á réttum tíma, hvort hann sýni efninu áhuga og spyrji spurninga eða hvort hann sé að kljást við önnur vandamál sem hindra hann að hafa staðið sig vel á prófi, eins og aðstæður heimafyrir eða tungumálakunnátta svo eitthvað sé nefnt.

Öll skólastig á Íslandi, frá grunnskóla og upp í háskóla nota skólaeinkunn við útskrift eða lok áfanga!

Það er því furðulegt að Jón Pétur telji það vera tiltökumál að það sé gert í grunnskólum, en ég skal koma að því á eftir af hverju einhverjir telja það vandamál, og hvað við eigum að gera í staðinn að mínu mati.

Það eru kostir og gallar við það að í framhaldsskólum og háskólum séu engar samræmdar einkunnir eða samræmd próf á milli skóla heldur skólaeinkunnir. Hér á landi kenna og meta kennarar nákvæmlega það sem þeir telja eiga erindi hverju sinni, á þann hátt sem þeir telja best. Þetta er jákvætt því kennarar, á öllum skólastigum, eru menntað fagfólk sem á að treysta til þess hvort sem það er í leik-, grunn-, framhalds- eða háskóla.


SEINNI PUNKTURINN

Þetta færir mig að seinni punktinum um að (C) hér ríki einkunnaverðbólga ríki, (D) hér sé ekkert eftirlit né samræming á milli einkunna grunnskóla og (E) jafnræðisekki gætt

C. EINKUNNAVERÐBÓLGA

Ég ætla ekki að efast um að hér ríki einkunnaverðbólga, ég ætla meira að segja að trúa því.

En til þess að skilja af hverju hér ríki möguleg einkunnaverðbólga þarf að skoða hvaða aðstæður íslenskir grunnskólakennarar (sérstaklega á unglingastigi) eru settir í af ríkinu sem útskýrir hana. Förum yfir það á eftir.

D. EKKERT EFTIRLIT, NÉ SAMRÆMING MEÐ EINKUNNUM

Það er varla rétt að hér sé ekkert eftirlit með einkunnum úr grunnskóla. Ef það er ekkert eftirlit, eins og Jón Pétur sagði, þá veit ég ekki hvar hann fékk þau gögn sem segja að einkunnir úr grunnskóla séu hærri en þær ættu að vera. Kannski eru það gögn úr hans eigin skóla, og þá væri nær að hann myndi laga það.

En áfram með smjörið. Ég er sammála því að hér á landi sé allavega lítið eftirlit með einkunnum og lítil samræming á einkunnum úr grunnskóla. Ég held að það sé satt. En ég held líka að það sé gott. Ég skal útskýra af hverju.

Fyrir hverja er skortur á samræmdum einkunnum vandamál?

Margir gætu spurt sig Af hverju er það vandamál? Hverju skiptir það hvort Kristófer í Norðlingaskóla og Sigga úr Garðaskóla fái bæði B í stærðfræði við lok grunnskóla? Hverju skiptir það fyrir foreldra Arnars í Hagaskóla að hún Paloma í Grunnskóla Önundarfjarðar fái örugglega D í íslensku og hann Arnar þeirra fái A-ið sitt?

Jú, hann Jón Pétur heldur áfram í viðtalinu og kemst þar að kjarnanum í þessu heila máli þegar hann sagði: „Það velt­ur síðan á þess­um (skóla)ein­kunn­um, hvaða nem­end­ur kom­ast inn í eft­ir­sótt­ustu fram­halds­skól­ana.” 

BÚMM!

Góð skólaeinkunn er nefnilega miði inn í eftirsótta framhaldsskóla!!!

Þarna komum við að kjarna málsins. Örfáir framhaldsskólar þurfa nefnilega að nota skólaeinkunn úr grunnskóla til að meta hvaða nemendur komast inn í skólann ef umsóknir eru umfram pláss!

Þessi notkun örfárra eftirsóttra framhaldsskóla býr til alls konar vandamál, sérstaklega fyrir kennara á unglingastigi í grunnskóla sem fá pressu á sig frá þröngum hópi áhrifaríkra foreldra sem vilja að börnin sín fái nægjanlega háa einkunn til að komast inn í einn af 2-3 eftirsóttustu framhaldsskólunum. 

ATH. Þessi notkun eftirsóttustu framhaldsskóla landsins á skólaeinkunnum grunnskóla er ekki þeim að kenna. Þeir eru að vinna innan kerfis og umhverfis sem viljandi aðgreinir börn við lok grunnskóla í stað þess að stuðla að jöfnuði. Það má bara ekki tala um það.

Það er því ekki gott fyrir áhrifaríka foreldra ef of mörg börn á landinu fá B eða hærra, eins og Jón Pétur heldur fram að sé raunin, því hvernig á eftirsótti framhaldsskólinn að sjá að barn áhrifaríku foreldranna á að komast inn umfram barn fátæku innflytjendanna ef þau eru bæði með B?

Frétt á RÚV, 7.júní 2023

Foreldrar 10.bekkinga hóta grunnskólakennurum við útskrift úr grunnskóla

Áhrifaríkir foreldrar reyna því stundum með öllum ráðum að fá lokaeinkunnum barna sinna úr grunnskóla breytt, fái þau ekki einkunnir sem duga þeim til að komast í vinsæla framhaldsskóla. Fréttir hafa borist að slíkir foreldrar mæti með lögfræðinga á útskrift barnsins síns úr 10.bekk.

Svo fólk skilji þetta þá eru hér á ferð líklega mjög áhrifaríkir og vel tengdir foreldrar sem óska eftir því einfaldlega að barnið þeirra fái hærri einkunn, svipað og þegar Trump hringdi í Brad Raffensperger í Georgíu-fylki og bað hann að „finna” 11.780 atkvæði svo hann gæti orðið forseti aftur.

Þegar þú sérð svona frétt næst, eins og birtist á RÚV í fyrra, þá veistu að það er vegna þess að barnið einhvers átti ekki skilið að fá einhverja einkunn, kemst því kannski ekki inn ákveðinn vinsælan skóla sem stressar foreldrana sem vilja kannski helst að barnið þeirra umgangist önnur börn sem eru svipað hvít, tali svipað góða íslensku og keyri svipað fínan bíl og barnið þeirra. 

Í staðinn fyrir þó að benda á unglinginn þegar slæmar skólaeinkunnir berast er bent á kennarann við lok 10.bekkjar og sagt að hann þurfi að gera betur.

E. JAFNRÆÐIS EKKI GÆTT

En er ekki einfaldast og sanngjarnast að hafa bara samræmd próf við lok grunnskóla?

Það er mjög auðvelt að halda að það að setja samræmdu prófin á að nýju sé lausnin. Það taki þessa pressu bara af kennurum og mjög rökrétt að áhrifaríku foreldrarnir telji fólki trú um að það sé sanngjarnast fyrir alla og í því felist einmitt jafnræði með einhvers konar íslensku og stærðfræði-prófi, sem tekið er á köldum vormorgni við lok grunnskóla. Þannig fleytum við „rjómann” af í hverjum árgangi og gefum þeim miða í eftirsóttustu skólana á meðan mjólkin og undanrennan fari í aðra skóla. 

Segjum að samræmd próf væru tekin upp að nýju og framhaldsskólar noti einungis samræmdu einkunnirnar úr einföldu og fljótlegu prófi íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla til að ákvarða hver komist inn í skólann. 

Einkunnir úr samræmda prófinu koma svo í maí og þá veifa áhrifaríku foreldrarnir einkunnum barnanna sinna úr einföldu og fljótlegu samræmdu prófi og segja: „Sjáðu hvað barnið mitt er betra í íslensku en barn innflytjandans á horninu! Augljóslega á barnið mitt að komast inn í FínaFlottaSkólann frekar en innflytjandinn! Þetta er nú einu sinni samræmd og sanngjörn mæling…” Einfalt, ekki satt?

Staðreyndin er sú að börn sem eru með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn eiga oft lítinn sjéns í íslenska krakka á íslenskuprófinu, og börn í lægri efnahagsstöðu eiga minni möguleika t.d. á þjónustu einkakennara sem þjálfar þau fyrir samræmdu prófin eins og börn ríku foreldranna geta gert. 

Þar að auki eiga einföld samræmd próf erfitt með að meta hluti sem raunverulegu máli skipta. Þau gefa hvorki nægilega breiða mynd af getu nemenda né samræmast þau þeirri grundvallarhugsun sem lögð er fram í aðalnámskrá grunnskóla og snýr að hæfni og færni nemenda nema að litlu leyti. Að auki prófa samræmd próf ekki í lykil-hæfni-þáttum Aðalnámskrár grunnskóla vegna próffræðilegra takmarkana þeirra.

Hvað með jafnræðið?

Stjórnvöld segja í alls konar stefnuskjölum að skólar eigi að vera jöfnunartæki. 

Áherslan ‘Jöfn tækifæri fyrir alla’ var einmitt ein af fimm grunnstoðum í menntastefnu ríkisins til 2030 sem var samþykkt samhljóða á Alþingi 2021. Ekki einn þingmaður setti sig upp á móti því. Við erum öll sammála um jöfnun tækifæra, allavega á pappír. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði m.a.s. í grein í Morgublaðinu í dag að:

„Menntakerfið er beittasta og skilvirkasta verkfærið sem hvert samfélag hefur til að tryggja jöfn tækifæri óháð efnahag, uppruna, búsetu eða fjölskylduhögum.” -Óli Björn Kárason

Ef okkur er raunverulega annt um þessi jöfnu tækifæri og jafnræðið sem Jón Pétur og Óli Björn töluðu um, þá ættum við að tala fyrir því öll skólastig endurspegli það þjóðfélag sem við búum í. 

Barni á ekki að vera neitað um skólavist vegna lestrarörðugleika, tungu, uppruna eða bágrar fjárhagsstöðu foreldra svo eitthvað sé nefnt! Það finndist okkur óásættanlegt!

Ímyndaðu þér t.d. að þessi frétt myndi birtast í blaðinu á morgun

Hvað myndir þú segja ef þessi frétt myndi birtast á miðlum?

Ég býst við að flestum þætti þetta óásættanlegt enda augljóslega gegn þeim gildum sem við viljum að menntakerfið okkar standi fyrir. 

Sem betur fer hefur svona frétt ekki birst því leik- og grunnskólar sveitarfélaganna taka við öllum börnum, óháð útkomu úr læsisskimun leikskóla, þjóðerni, fjárhagsstöðu foreldra, heilsufari, lesblindugreiningum eða þjóðfélagslegri stöðu svo lengi sem pláss er í skólanum. 

En hvað ef ég segi þér að eftirsóttir framhaldsskólar gera þetta á hverju ári?

Eftirsóttir framhaldsskólar hafa getað mismunað ungmennum í áratugi, m.a.s. þegar samræmdu prófin voru enn við lýði, og einfaldlega valið sig framhjá ákveðnum nemendum undir því yfirskyni að „þeir séu ekki nægjanlega góðir fyrir skólann”. Þeir nota grunnskólakennarana m.a. til þess og segja að hér sé krafist þess að þú hafir þá einkunn í íslensku og stærðfræði sem henti þessum tiltekna skóla, eða kannski þekkir pabbi þinn bara skólameistarann, það virkar líka. 

Vinsælir framhaldsskólar vilja því að ákveðin börn fari annað og segja í raun:

„Barn eins og þú átt ekki heima í skóla eins og okkar!” 

Það jákvæða er að flestir framhaldsskólar taka við öllum sem sækja um á meðan pláss er, rétt eins og leik- og grunnskólar. 

En nokkrir þeirra eftirsóttustu hafa fleiri umsóknir í fyrsta val en pláss eru. Sem dæmi, ef þrír nemendur eru með sömu skólaeinkunnina, t.d B, þá getur framhaldsskólinn ákveðið að taka inn son nágranna skólameistarans, eða dóttur bæjarstjórans umfram son innflytjendans.

Mér er sama þó enginn hjá ríkinu, eins og Jón Pétur hefur áhyggjur af, sé í því að skoða hvernig Kalli í Hrísey fór að því að fá B+ í lífsleikni í 4.bekk. Það er miklu alvarlegra að enginn hjá ríkinu sé að fylgjast með hvernig þessir framhaldsskólar ákvarða inntöku nýnema!

Hvernig breytum við þessu?

Ef við viljum raunverulega breyta þessu svo að framhaldsskólarnir allir endurspegli það samfélag sem við búum í þá þurfum við að vinna á meininu en ekki bara horfa á einkennin.

Einkennin eru að grunnskólakennarar (sérstaklega á unglingastigi) fá á sig ómælda pressu og eyða gríðarlegum tíma í að meta öll hæfniviðmið inn í Mentor til þess mögulega að geta staðið frammi fyrir foreldrum Arnars við útskrift úr 10.bekk og sannað að hann hafi átt B-ið skilið í stærðfræði en ekki B+. Þetta væri ekki svona flókið og timafrekt ef innritunarkerfi í framhaldsskóla væri sanngjarnara. 

Við erum við föst í stórkostlegri hringavitleysu námsmats sem tekur gríðarlegan tíma frá raunverulega mikilvægu starfi kennara um land allt!

Vænlegra væri að ráðast á meinið sjálft sem er aðskilnaðarkerfi ríkisins við inntöku ungmenna í framhaldsskóla.

„Ef við trúum því að skólakerfið eigi að vera jöfnunartæki, þá liggur vandamálið ekki í því hvernig grunnskólar útskrifa heldur hvernig framhaldsskólar innrita!”

Innritun frekar en útskrift

Þegar umræðan er færð yfir á vonlausa stöðu grunnskólakennara við lok grunnskóla, og látið eins og lausnin sé samræmd einkunn er verið að beina okkur frá aðalatriðinu. 

Málið snýst ekki um að grunnskólar þurfi að gefa samræmdari skólaeinkunn við lok grunnskóla eftir 2-3 stutt samræmd krossapróf frá ríkinu. Umræðan á að snúast um að breyta innritunarkerfi framhaldsskóla svo það verði það jöfnunartæki sem menntakerfinu okkar er ætlað að vera!

Inntaka í ákveðna, vinsæla framhaldsskóla er hannað af ríkinu sem aðskilnaðartól til að geta skilið á milli stéttar og stöðu, tungumáls, þjóðfélagsstöðu og tekna. Þetta er viljandi gert, og tal um samræmdar einkunnir eru til þess fallnar að geta aðgreint enn frekar, en þá með staðfestingu frá ríkinu sem „sannar” það að ríka barnið á miklu frekar heima í eftirsótta skólanum heldur en fátæka barnið sem þarf að passa systur sína öll kvöld og vinna aukavinnu um helgar svo foreldrar þess geti borgað leigu.

“The Purpose Of A System Is What It Does, Not What It Claims To Do” - Stafford Beer

Ef við breytum því hvernig ákveðnir framhaldsskólar mega velja sig framhjá nemendum með lesblindu eða þeim sem eru með fjölbreyttan menningar-og tungumálabakgrunn þá getum við fært okkur nær því að framhaldsskólarnir endurspegli það fjölbreytta þjóðfélag sem við búum í.

„Í framhaldsskólanum eigum við að halda áfram með það sem frá er horfið úr leik- og grunnskólunum og byggja brýr jöfnuðar í stað þess að grafa skurði aðgreiningar.”

Hvað við eigum að gera í staðinn?

Ég er með hugmynd!

  • Hugmynd sem áhrifaríkt fólk sem er líklegt til að mæta með lögfræðing á prófsýningu í grunnskóla gæti þótt ómöguleg, en öllum sem er annt um að auka jöfnuð í okkar samfélagi myndu fagna. 

  • Hugmynd sem framhaldsskólakennarar í örfáum skólum sem eru vanir að fá „rjómann” fleyttan úr grunnskóla inn í sinn skóla gætu þótt ómöguleg, en grunnskólakennarar sem eyða gríðarlegum tíma í að meta öll hæfniviðmið inn í Mentor myndu fagna.

  • Hugmynd sem allir þingmenn ættu að fagna enda byggir hún á fyrstu meginstoð menntastefnu 2030 sem þeir samþykktu sjálfir.

Hugmyndin er nýtt jöfnunarkerfi við inntöku í framhaldsskóla!

Til þess að jafna stöðu nemenda og að framhaldsskólar endurspegli samfélagsgerðina betur, legg ég til að tekið verði inn í íslenska framhaldsskóla með svokölluðu jöfnunarfyrirkomulagi þar sem allir nemendur sækja um í þann skóla sem þau telja henti sér best (fyrsta val) og einfaldlega sé dregið inn ef umsóknir eru umfram pláss. 

Ef þú kemst ekki inn í þitt fyrsta val (sem líklega 15-20% nemenda fengju ekki m.v. innritunartölur 2024), þá er dregið um annað val (ef það er ennþá laust þar eftir fyrstu umferð) og svo framvegis. 

Jöfnunarkerfi svipað þessu þekkist t.d. í almenningskólum hér í New York þar sem dregið er inn. Þar eru ýmsar reglur eins og að þú farir ofar á listann ef þú átt systkini í skólanum, ert úr lágri þjóðfélagsstöðu eða viðkvæmum hópi á einhvern hátt, hefur fjölbreyttan menningar-og tungumálabakgrunn eða einhverjar sérþarfir sem aðeins þessi skóli getur mætt svo eitthvað sé nefnt. Ýmislegt slíkt væri hægt að setja inn í jöfnunarkerfi í íslenska framhaldsskóla til að tryggja þessa jöfnun og aðgengi ungmenna að menntun, en þar sem við erum dreifbýlt land þyrfti reglan líka að vera að ef ekki er fleiri en einn framhaldsskóli í ákveðið margra kílómetra fjarlægð frá lögheimili þá hefur sá nemandi forgang í sinn "heimaskóla" kjósi hann þann skóla í sitt fyrsta val. En þetta er allt útfærsluatriði.

Með þessu kerfi myndi ýmislegt jákvætt gerast. Nemendaflóra hvers skóla yrði fjölbreyttari og það yrði nemendanna að velja skólana en ekki öfugt.

Lokaorð

Skólakerfið okkar á að vera jöfnunartæki! Tæki til þess að jafna möguleika ólíkra hópa. Í hverjum einasta skóla eiga að vera bæði ungmenni úr efri stétt og úr lægri stétt, ungmenni sem búa í einbýlishúsi og þau sem búa í blokk, ungmenni sem eru sterk félagslega og önnur sem eiga erfiðara með að eignast vini, ungmenni sem eru lesblind við hlið þeirra sem eru það ekki, ungmenni með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn og þau sem eru fædd og uppalin á Íslandi.

Ég tel að skóli án aðgreiningar sé styrkleiki íslensks skólakerfis og samfélags sem við eigum að vera stolt af og láta ná uppí framhaldsskóla (og háskóla). Það er ekki einföld stefna fyrir okkur að framkvæma og margt má gera betur t.d. í námsgögnum og einstaklingsmiðun. En stefnan er mikilvæg fyrir okkur sem samfélag að segja ekki að börn og ungmenni sem eru einstök, tala eða labba öðruvísi eigi að fara eitthvert annað en börn sem eru „eðlileg”... Hvað svo sem það nú þýði. Skólakerfið á að vera jöfnunartæki. Líka framhaldsskólinn.

-Ingvi Hrannar


Hlustaðu á bloggið hér:


Þar sem ég vildi ekki lengja bloggfærsluna ennþá meira, en veit að einhverjir myndu vilja kynna sér málið enn betur þá setti ég inn nokkrar örskýringar fyrir þá sem vilja kafa ennþá dýpra í einhverja hluti.

    1. Skólaeinkunnir eru mat kennara á því hvernig hver nemandi stendur út frá viðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla og/eða þeim viðmiðum sem skólinn hefur sett sér í skólanámskrá og skólastefnu eða áfangalýsingum hvers framhaldsskóla/háskóla. 

    2. Meginrök fyrir nýjum einkunnakvarða eru að með nýrri aðalnámskrá sé aukin áhersla lögð á hæfni og þar er lýst þeirri hæfni sem liggur að baki hverri einkunn (A, B+, B, C+, C). Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Mat á hæfni byggir því ekki eingöngu á mati á þekkingu nemandans eða leikni til að framkvæma, heldur getu hans til að skipuleggja, útskýra og nota hugtök um efni viðkomandi námsgreinar eða námssviðs.

  • Ef við hugsum um skólaeinkunnir í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla þá er reyndar hægt að halda því fram með góðum rökum að kennsla og einkunnir í grunnskóla séu, ef eitthvað er, samræmdari en í bæði framhaldsskólum og háskólum. Það er vegna þess að grunnskólinn hefur sameiginlega greinanámskrá (sjá hér) sem segir til um þá hæfni sem nemendur eiga að búa yfir við lok hvers stigs (yngsta-, mið- og unglingastig) en ekkert slíkt er að finna í hvorki framhaldsskólum eða háskólum. Þannig miðar námsmat í grunnskóla að þeim markmiðum sem liggja fyrir í sameiginlegri Aðalnámskrá allra grunnskóla, en engin samræming er á milli áfanga á milli framhaldsskóla eða markmiða úr þeim. Saga103 í einum framhaldsskóla er gjörólík áfanganum Saga103 í öðrum framhaldsskóla, og sömu sögu er að segja í háskóla þar sem áfangi í verkfræði við HÍ er með önnur markmið og önnur próf og áfangi undir sama heiti í HR. Engin samræming er þarna á milli, ólíkt grunnskólanum. 

  • Einkunnaverðbólga er það þegar fleiri nemendur fá einkunnir yfir því sem eðlilegt getur talist. Þannig hafi fleiri nemendur háar einkunnir, en normalkúrfa gengur út á í stuttu máli að um helmingur sé við miðju, 1/4 undir og 1/4 yfir. Ef of margir fá A, þá er námsmatið of létt. Ef of margir fá D, þá er námsmatið of erfitt.

  • Það má (og á) verulega gagnrýna normalkúrfu í einkunnum þar sem hún eykur samkeppni og dregur úr samvinnu á milli nemenda. Í stuttu máli er það nefnilega svo að ef kennari (eða heilt skólakerfi) ætlar að meta nemendur á normalkúrfu (eins og gömlu samræmdu prófin gerðu) þá er það svo að ef einn nemandi á að fá A, þá þarf einhver annar að fá D. 

    Mun betra er að setja upp hæfnimörk þar sem ákveðin hæfni er ákveðin og annað hvort nærðu henni eða ekki, óháð því hvort aðrir í bekknum/á landinu geri það.

  • Miðað við tölur um 1.val inn í framhaldsskóla í vor eru þetta 9 vinsælustu skólarnir ef miðað er við fjölda nemenda sem settu skólann sem sitt 1.val vs. hve margir nemendur voru innritaðir fyrir haustönnina 2024:

    1. Kvennaskólinn í Reykjavík (308 setja hann sem 1.val, hann hefur 212 pláss)

    2. Verzlunarskóli Íslands (522 setja hann sem 1.val, hann hefur 370 pláss)

    3. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ (251 setja hann sem 1.val, hann hefur pláss)

    4. Menntaskólinn að Laugarvatni (68 setja hann sem 1.val, hann hefur 56 pláss)

    5. Menntaskólinn í Kópavogi (312 setja hann sem 1.val, hann hefur 264 pláss)

    6. Tækniskólinn (441 setja hann sem 1.val, hann hefur 383 pláss)

    7. Menntaskóli í tónlist (16 setja hann sem 1.val, hann hefur 14 pláss)

    8. Menntaskólinn á Akureyri (190 setja hann sem 1.val, hann hefur 174 pláss)

    9. Menntaskólinn í Reykjavík (272 setja hann sem 1.val, hann hefur 270 pláss)

    • Um 95% barna sækja um í framhaldsskóla við lok 10.bekkjar.

    • Flestir framhaldsskólar eru með fleiri pláss en umsóknir.

    • 84,5% nemenda komast inn í þann skóla sem þeir sóttu um sem fyrsta val.

    • Það eru 9 framhaldsskólar sem eru eftirsóttari sem 1.val heldur en plássin sem þeir hafa eru.

    • Flestir sækja um í Tækniskólann, en hann innritar jafnframt flesta nemendur.

    • Kvennó er eftirsóttasti skóli landsins og 3.35x fleiri sem setja hann í 1. eða 2.val heldur en komast inn (711 en aðeins 212 pláss).

    • Flestir setja Verzló sem 1.val. (522) en fáir setja skólann sem annað val.

    • 11,8% nemenda fóru í skólann sem þau settu sem annað val.

    • MR og MA eru ekki eins eftirsóttir og oft er talið (innan við 10% umfram af fyrsta vali), en 272 setja MR í fyrsta val og 270 nemendur eru teknir inn í skólann.

    • 22 skólar (af 31) innrita jafn marga eða fleiri og sóttu um skólann sem 1.val og þurftu ekki að velja úr.

    • 3,7% nemenda komust ekki inn í 1. eða 2.val og fóru þá inn í 3.val

    (Sjá tölur hér frá MRN um innritun í framhaldsskóla fyrir haustið 2024)

  • Fyrir því eru margar ástæður en ein af þeim er að töluverðar efasemdir hafa verið um að samræmd könnunarpróf séu almennt heppileg tæki til opinbers eftirlits með árangri og gæðum skóla. Þau mæla aðeins örlítinn hluta af námskrá í nokkrum fögum og gefa ekki heildstæða mynd af skóla, nemanda eða skólakerfinu. Þau eru líkleg til þess að vinna gegn markmiðum Aðalnámskrár vegna þess að með því að prófa aðeins örfá fög er hætta á að námskráin sé þrengd og minni áhersla sé lögð á mikilvæg fög vegna þess að þau eru ekki prófum.


    Þar að auki mældi samræmda könnunarprófið í íslensku ekki nema lítinn hluta af því sem Aðalnámskrá segi að leggja eigi áherslu á. Könnunarprófin mátu t.d. hvorki ritun, tjáningu eða tal heldur einungis málfræði og bókmenntir vegna próffræðilegra takmarkana. 

    Árið 2018 var starfshópur settur á fót sem skoðaði og mótaði framtíðarstefnu samræmdra könnunarprófa. Hópurinn var skipaður fulltrúum Sambands íslenskra Sveitarfélaga, félags fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Skólastjórafélags Íslands, Félags grunnskólakennara, Heimilis og skóla, Umboðsmanns barna ásamt sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum árið 2020 í skýrslu með tillögum að framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Í niðurstöðu sinni sagði starfshópurinn m.a. að þó hópurinn dragi ekki í efa mikilvægi þess að afla nauðsynlegra gagna til að veita nemendum, forráðamönnum, kennurum og fræðsluyfirvöldum leiðbeinandi upplýsingar um stöðu nemenda og skólakerfisins í heild taldi hann þáverandi gerð og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa ekki henta í þeim tilgangi. Hann lagði því til að samræmd próf yrðu ekki þróuð frekar og að notkun þeirra yrði hætt (Skýrsla um Framtíðarstefnu um samræmt námsmat, 2020, bls.11), sem var svo gert fljótlega eftir.

  • PISA prófið sýndi okkur að munur á milli barna úr lægstu þjóðfélagsstétt og þeirri hæstu á Íslandi er um tvöfalt meiri (og fer hratt vaxandi) en munur á milli drengja og stúlkna og mikið hefur verið rætt um undanfarið. Kynjamunur hefur minnkað (stelpur vs. strákar) en munur á milli þjóðfélagshópa hefur aukist.

  • Hugtökin mismunun og jafnræði eru í raun nátengd. Mismunun er þegar brotið er gegn jafnræði og komið er ólíkt fram við einstaklinga en jafnræðisreglan svokallaða er ein af grunnhugmyndum mannréttinda almennt. Okkur finnst almennt að ekki eigi að mismuna fólki og að skólakerfið sé tæki til að jafna tækifæri fólks. Í annarri grein Barnasáttmálans segir einmitt að öll börn eigi að hafa sömu möguleika og ekki megi mismuna barni á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess, foreldris þess eða lögráðamanns.

  • Haustið 2023 voru 94,8% 16 ára nem­enda skráð í nám á fram­halds­skóla­stigi (frétt)

    Fyrirsögnin ráðuneytisins ‘Öllum tryggt pláss í framhaldsskólum’ er því villandi því ekki er öllum tryggt pláss í framhaldsskólum eins og fyrirsögnin segir heldur fengu allir nýnemar inngöngu úr grunnskóla sem sóttu um pláss í framhaldsskóla. Um 5% 10.bekkinga sótti ekki um í framhaldsskóla, og fengu því ekki pláss vegna þess að hér á landi er ekki skólaskylda til 18 ára (eins og t.d. Í Finnlandi, Belgíu, Þýskalandi, Hollandi ofl.), heldur bara 16 ára.

    Margir myndu telja furðulegt að skilin á milli skólastiga (grunnskóla og framhaldsskóla) séu svona mikil. Ef allt væri eðlilegt, þá væri hér á landi skólaskylda til 18 ára og ungmenni myndu sjálfkrafast færast úr 10.bekk upp í framhaldsskóla rétt eins og þegar þau fara úr 4.bekk upp í 5.bekk. En svo er ekki. Hvers vegna ekki?

    Hér á landi býr ríkið viljandi til þessi skil, í stuttu máli svo þau þurfi ekki að borga fyrir námsgögn nemenda og geti áfram rukkað innskráningargjöld í framhaldsskólana… Allt hlutir sem ríkið krefur sveitarfélögin um að gera í grunnskólum, en ákveður sjálft að gera ekki og gera þannig aðgengi að menntun erfiðara m.a. fyrir ungmenni í lægri þjóðfélagsstöðu, sem ættu kannski bara að finna sér vinnu og snúa hjólum atvinnulífsins.

    Reglugerð 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla. 

    Þar segir í raun að skólinn eigi að miða við skólaeinkunnir ef umsóknir eru umfram pláss, skólinn getur tekið mið af nánast hverju öðru sem hann vill til að ákvarða hver kemst inn (eins og þáttöku í félagsstarfi eða íþróttum) og má m.a.s. Innrita nemendur sem uppfylla ekki skilyrði innritunar telji hann það góða hugmynd.

Previous
Previous

„Frjálsa” skólavalið í framhaldsskóla og aðskilnaður stétta

Next
Next

Í hvað erum við að flýta okkur? Ofuráhersla á bóklega færni ungra barna dregur úr hæfni þeirra í því sem mestu máli skiptir