Himingeimur og reikistjörnur - Vika með 4.bekk

Í byrjun febrúar (4-8.feb.) fékk ég að bætast við teymi 4.bekkjar kennara í Árskóla.Viðfangsefnið var himingeimurinn og reikistjörnurnar og byggðum við mikið af vinnunni á því sem ég hafði gert í Grunnskólanum austan Vatna á Hólum í janúar, sem má finna hér. Þó bættum við þónokkru við sem ég vildi deila með ykkur.

Markmið

Við byrjuðum að sjálfsögðu að fara yfir nokkur af þeim markmiðum sem við vildum vinna með þessa vikuna:

Kveikja

Því næst hófum við vinnuna á kveikju um himingeiminn og reikistjörnurnar. Nemendur fengu að fara í sýndarveruleika og skoða reikistjörnur, himingeiminn og stjörnur í Google Expeditions. Ef þið hafið ekki prófað það þá getið þið sótt það frítt í næsta iPad og farið að skoða. Ef þú vilt stýra svoleiðis vinnu í bekknum þínum, þá þarf kennarinn að hafa appið og velja 'Guide' og nemendur velja 'Join'. Öll tækin þurfa að vera á sama neti og svo kveikir kennarinn á þeirri mynd sem er til umfjöllunar og fær upplýsingar um það sem á henni er.Við unnum með stjörnurnar og pældum í himingeiminum almennt, sem kveikju að því sem koma skyldi í vikunni. Þetta vakti mikla lukku eins og sjá má.

Að smíða geimskip

Fyrsta verkefnið okkar miðaði svo að því að nemendur ynnu saman að hönnun á geimskipi sem ferðaðist svo á milli reikistjarna sólkerfisins okkar (þar sem Sphero vélmennið virkar sem vél).Þarna var mikilvægt að nemendur skipuleggðu hönnun sína áður en hafist væri handa.Hér getið þið fengið blaðið sem nemendur unnu með: Geimfar_SpheroÓhætt er að segja að geimskip nemenda hafi verið mjög skapandi og vel unnin. Þau hugsuðu um þyngd, útlit og komust að samkomulagi því þetta var unnið í 2ja manna hópum.

Að æfa sig að stjórna geimfari - Forritun með Sphero

Allar reikistjörnurnar voru límdar á gólfið þannig að nemendur gerðu sér betri grein fyrir innri og ytri reikistjörnunum og hefðu skotmörk til þess að miða geimfarinu sínu þegar það kæmi að því að forrita það.Hér geta kennarar fengið reikistjörnurnar til þess að prenta sjálfir út, líma á gólfið og forrita Sphero til þess að ferðast á milli: Reikistjornurnar_IngviHrannar

Út í geim og aftur heim

Til þess að fá leyfi til þess að stýra geimskipi þurftu nemendur að sýna fram á færni sína að senda það af stað út í geim og aftur heim. Þetta var gert með því að forrita Sphero SPRK+ með nokkrum einföldum skipunum.... Roll 0° / Delay 2s / Roll 180°.Eftir útskrift úr 'Geimskips-stjórnunar-skólanum' fengu nemendur 40 mínútur í að forrita Geimskipið sitt til þess að koma við á eins mörgum reikistjörnum og hægt var. Þetta krafði þau um það að vera þolinmóð, leita lausna, mæla, prófa aftur og aðstoða aðra.Þessu var svo skilað í Seesaw þannig að foreldrar sæju og hægt væri að meta verkefnið út frá markmiðum.

3 nemendur -> 1 reikistjarna

Í árganginum eru 27 nemendur og skiptum við þeim í 9x 3ja manna hópa. Hver hópur fékk eina reikistjörnu eða sólina og áttu að fjalla um hana ítarlega, bæði með texta, plakati og myndbandi.Nemendur fengu m.a. að „fara á" reikistjörnuna sína í Google Expeditions og unnu plakat um sína reikistjörnu.Það sem nemendur fengu að gera einnig var að skoða reikistjörnuna sína í gagnauknum veruleika (Augmented Reality) í gegnum Google Expeditions appið. Það voru svokallaðir 'triggerar' prentaðir út og kennarinn lét reikistjörnuna birtast í stofunni og gátu nemendur gengið í kringum hana og skoðað með eigin augum.

Grænskjár þar sem nemendur „eru á" reikistjörnunni og segja frá henni.

Að lokum vann hver hópur upplýsingamyndband um sína reikistjörnu. Þetta gerðum við með GreenScreen og einum iPad með appinu GreenScreen by DoInk. Þetta krafðist þess að nemendur hefðu æft sig í tjáningu og unnu saman að því að gera sitt myndband sem best og koma upplýsingunum skilmerkilega til skila.Hér að neðan eru allir bakgrunnarnir frá mér, sem kennarar geta sótt og notað sem bakgrunn fyrir hvern hóp í GreenScreen:SólinMerkúrVenusJörðinTungliðMarsJúpiterSatúrnusÚranusNeptúnusPlútó

Að tengja plakat og myndband saman...

Lokahnykkurinn var svo það þegar plakatið þeirra og myndbandið voru tengd saman með HP Reveal appinu. Það virkar þannig að plakatið verður nokkurs konar QR kóði þar sem myndbandið sem tengist því, birtist ofaná plakatinu.Nemendur fóru og skoðuðu hver hjá öðrum og fræddust heilmikið um plánetur, samvinnu, góða tjáningu og hvað tæknin sem þau hafa aðgang að í vasanum, getur verið notuð á magnaðan hátt.Nemendur hafa horft á myndböndin sín og hvers annars líklega yfir 300x og haft gaman af.Það er magnað hvað hægt er að gera þegar við blöndum því áþreifanlega við það stafræna. Skólastarf magnast upp og við gerum meira en áður var hægt.... eða eins og Steve Jobs sagði eitt sinn:

"Computers are like a bicycle for our minds."

Previous
Previous

Varúlfaspilið - Gjöf til kennara og nemenda

Next
Next

Bækur