Íslandsverkefni í 3.bekk Árskóla

Í febrúar hitti ég umsjónarkennarana þrjá sem kenna 3.bekk í teymiskennslu í Árskóla og var nú komið að þeim að ég myndi bætast við teymið þeirra í 1-2 vikur. Fyrsta spurning var um markmið sem kennarar stefndu á að ná á þessum tíma. Hvaða markmið áttu þær eftir að taka fyrir formlega og hvernig ég gæti komið að þeirri vinnu. Í framhaldi af því ákváðum við að verkefni tengt Íslandi myndir henta best. Markmiðin má finna neðst í færslunni en í stuttu máli unnum við verkefni um Ísland í Seesaw, flugum yfir Ísland í sýndarveruleika og Google Earth og bjuggum svo til myndbönd um staði/kennileiti á Íslandi sem við skoðuðum í Flipgrid AR.

Nánari lýsingu á hverjum þætti er að finna hér að neðan 👇

Íslandsverkefnið

Við ákváðum að nota Seesaw í vinnu tengdri Íslandi og bókinni Halló Heimur. Hér eru hlekkir á nokkur af þeim Seesaw verkefnum sem við notuðum:

4 Seesaw verkefni fyrir kennara að nota 👇

Endurvinnsla - Orðaspil

Landið okkar

Krossorðasúpa - Umhverfið

Dýr í sjónum

Ísland í Sýndarveruleika

Á meðan hluti af bekknum vann ýmis verkefni í Seesaw og fræddist um Ísland þá fóru um 10 nemendur í einu í 1238 sem er sýndarveruleikasetur á Sauðárkróki. Þar fóru þau í Google Earth í sýndarveruleika og skoðuðu Ísland með því að fljúga yfir það og lenda á stöðum sem þau vildu skoða frekar.

Hér er nemandi í 3.bekk að fljúga yfir Ísland og finnur fjallið Tindastól í Skagafirði.

Myndbönd um staði á Íslandi í GreenScreen

Mörg af markmiðum vikunnar (sjá neðst) snéru að því að afla sér upplýsinga, leita sér upplýsinga í námi í ólíkum miðlum, Beitir skýrum og áheyrilegum framburði og semja texta frá eigin brjósti svo sem sögu, frásögn eða skilaboð.

Nemendur áttu að velja sér stað eða kennileiti á Íslandi einir eða í tveggja manna hópum og afla sér upplýsinga um staðinn. Þegar textinn var klár og nemendur hefðu æft sig í að beita skýrum og áheyrilegum framburði komu þau í upptökuherbergið þar sem búið var að stilla upp iPad á þrífót og grænu tjaldi. Kennari tók við einum hóp á fætur öðrum og tóku nemendur sig upp að segja frá staðnum/kennileitinu.

Flipgrid AR

Að því loknu var myndbandið sett í appið GreenScreen by DoInk á iPad og mynd af staðnum settur fyrir aftan. Þessu var svo hlaðið inn í Flipgrid appið svo hægt væri að breyta hverju myndbandi í „lifandi" myndband með aðstoð Flipgrid AR og QR kóða.

Flipgrid er frítt og með því að hlaða myndböndum þangað er hægt að smella á 'Print QR codes' sem hægt er að prenta út og hengja upp. Með því að nota svo Flipgrid appið er hægt að skanna QR kóða og birtist myndbandið þá ofaná QR kóðanum eins og það sé fljótandi.

Þessa QR kóða límdum við svo á Íslandskort og fóru nemendur svo að kortinu með iPadinn sinn og skönnuðu kóðana og lærðu um 25 staði/kennileiti á Íslandi með aðstoð tækninnar og bekkjarfélaga sinna.

Markmið vikunnar úr ANG

Lykilhæfni fyrir 3.bekk

  • Unnið eftir fyrirmælum og borið ábyrgð á eigin verkefnum og vinnubrögðum þegar við á.

  • Leitað sér upplýsinga í námi í ólíkum miðlum.

  • Notað miðla nokkuð sjálfstætt við nýsköpun, hugmyndavinnu og kynningu efnis.

  • Sýnt ábyrgð í meðferð upplýsinga og verið meðvitaður um gildi ábyrgrar netnotkunar.

Íslenska

1. Talað mál, hlustun og áhorf

  • Beitir skýrum og áheyrilegum framburði.

2. Lestur og bókmenntir

  • Aflar sér einfaldra upplýsinga úr bókum og af rafrænu formi.

  • Les úr einföldum skýringarmyndum, kortum og myndritum.

3. Ritun

  • Dregur rétt til stafs og skrifar skýrt og læsilega.

  • Semur texta frá eigin brjósti svo sem sögu, frásögn eða skilaboð.

  • Skrifar texta á tölvu og beitir einföldustu aðgerðum í ritvinnslu.

4. Málfræði

  • Raðar í stafrófsröð og gerir sér grein fyrir notagildi stafrófs.

Samfélagsfræði

  • Áttar sig á hlutverki landakorta og notagildi þeirra.

Náttúrufræði

  • Notar gervihnatta- og loftmyndir af yfirborði jarðar til að lýsa heimabyggð.

Njótið vel og vonandi getið þið nýtt ykkur Seesaw og Flipgrid og kannski bara kíkt til okkar á Sauðárkrók ef þið viljið

Ingvi Hrannar

Sem kennsluráðgjafi í Skagafirði er starf mitt það helst að vinna á „gólfinu" með kennurum og nemendum. Þannig hefur síðasti mánuður einkennst af Íslandsviku með 3.bekk í Árskóla, Norðurlandaverkefni í sýndarveruleika með 6.bekk, umsjón með Nýsköounarkeppni 5.bekkjar í Skagafirði, OSMO kennslu með starfsfólki yngsta stigs í Árskóla, forritun með öllum nemendum Grunnskólans austan Vatna á Hólum, uppsetning á Seesaw fyrir GaV og verkefni um Sólkerfið í sýndarveruleika með 6.bekk í Árskóla svo eitthvað sé nefnt.

https://twitter.com/IngviHrannar/status/1371389172813021185

Previous
Previous

Skuggadagur skólastjórnenda 2022

Next
Next

Among US fyrir alla fjölskylduna um jól og áramót - frítt spil fyrir þig