Among US fyrir alla fjölskylduna um jól og áramót - frítt spil fyrir þig

Þegar ég hitti bróðursyni mína (5 og 7 ára) nú fyrir jólin er áhugi þeirra á tölvuleiknum Among Us allsráðandi þessa dagana. Það er vissulega gaman að sitja og spila með þeim og heyra af áhuga þeirra að vinna saman og finna morðingjann í leiknum en ég hugsaði hvernig við gætum nýtt okkur þennan áhuga til þess að skapa saman og innvinkla m.a.s. ömmu þeirra og afa með okkur?

Hvað er Among Us?

Among Us er tölvuleikur þar sem allt að 10 spilarar geta spilað í einu, annað hvort með vinum eða fólki um allan heim. Í grunninn fá leikmenn hlutverk og eru annað hvort crewmate (almennur spilari) eða impostor (morðinginn). Leikmenn eiga að hlaupa um 'borðið' sem er geimskip og leysa verkefni sem á ensku kallast tasks. Impostor á að labba um leikinn og drepa aðra leikmenn en reyna að koma í veg fyrir að þeir fatti hver hann er. Ef leikmenn finna lík (e. dead body reported) halda þeir fund og kjósa leikmann út (nema að það sé jafntefli í kosningunni, þá heldur leikurinn áfram. Ef leikmann grunar að hann viti hver impostor-inn er getur hann farið í miðju leikborðsins og haldið neyðarfund (e Emergency meeting) og sagt öðrum hvað hann veit. Í grunninn er þetta svipað og leikir eins og Varúlfur, Morðingi eða blikklieikurinn.

Að búa til fjölskylduskemmtun úr Among Us.

Eftir að hafa fylgst með þeim spila og ræða saman datt mér í hug að búa til skapandi stund með strákunum og búa til Among Us í alvörunni þar sem fjölskyldan gat spilað saman. Við náðum í A4 blöð og byrjuðum að teikna persónur og verkefni (e.tasks) ásamt neyðarhnapp. Við fundum einnig búninga (hatta) sem þátttakendur gátu valið. Það var mikil spenna að segja frá öllum verkefnunum, nákvæmlega hvernig þau líta út og hvað maður gerir í hverju þeirra.

Skapið og spilið saman um jólin

Það tækifæri að sýna áhugamálum barna áhuga og spyrja þau um hvað þau séu að gera og jafnvel taka þátt með þeim eru ómetanleg. Ég legg til að í stað þess að kveikja á Among Us bara í tölvunni og láta börnin spila við ókunnuga út í heimi að búa til skapandi og skemmtilega fjölskyldustund þess í stað. Sækið blöð og teiknið allar persónur og þau verkefni (e. tasks) sem krakkarnir muna eftir. Þetta er tilvalið verkefni fyrir börn á aldrinum 6-10 ára myndi ég segja, jafnvel eldri.

Eftir að hafa búið til allt sem við þurftum æfðum við okkur í að blikka ef ske kynni að við yrðum 'impostor' og líka að taka a.m.k. 3 skref og detta niður ef við yrðum crewmate og værum blikkuð af impostor. Þessi æfing var góð fyrir leikinn.

Næst tilkynntum við öllum fullorðnum (alls 6 manns) að við myndum spila saman Among US eftir kvöldmat 8 saman. Stofan var sett upp með verkefnum drefit um og neyðarhnappurinn settur í miðjuna.

Að spila leikinn

Við frændurnir ákváðum að teikna allar persónur og verkefni og mæli ég með því. Það var miklu meira skapandi, þeir gátu ákveðið nöfn á allar persónur og fleira. Einnig hvaða verkefni (tasks) þeir vildu hafa.

Ég ákvað þó að búa til leikinn fyrir ykkur ef þið viljið annað hvort nota það til þess að teikna persónur og verkefni eða hreinlega prenta þetta allt bara út.

Þú getur sótt spilið frítt hér sem .PDF

http://ingvihrannar.com/wp-content/uploads/2020/12/AmongUS_familyedition_ingvihrannar.pdf

Reglur:

  1. Prentið út (eða teiknið saman) allar persónurnar og nokkur verkefni (e.tasks).

  2. Sex til tíu leikmenn spila saman og gott er að einn sé stjórnandi sem stýrir kosningum (þó hann megi einnig taka þátt í leiknum).

  3. Verkefnum (e.tasks) dreift um stofuna og útskýrð fyrir þátttakendum.

  4. Emergency meeting er sett á borð í miðjuna á stofunni.

  5. Allir draga persónu (hlutverk), skoða í leyni og setja miðann í vasann. Sá sem dregur rauða (impostor) er morðinginn.

  6. Leikurinn hefst og allir labba um og reyna að leysa verkefni (e.tasks).

  7. Impostor drepur með að blikka aðra leikmenn. Ef impostor blikkar þig áttu að taka a.m.k. 3 skref áður en þú dettur niður.

  8. Markmiðið er fyrir Crewmate að finna impostor áður en hann blikkar alla og kjósa hann út.

  9. Crewmate ákæra með því að “ýta” á neyðarhnappinn (e.Emergency button).

  10. Kosning fer fram með því að leikmenn rétta upp hönd og gott er að einn stjórnandi sé í leiknum.

  11. Crewmate vinna ef þeir finna impostor. Impostor vinnur ef hann drepur (blikkar) alla leikmenn án þess að vera kosinn út með meirihluta. Ef aðeins 2 eru eftir hefur impostor unnið

Að leika saman

Í þessum leik þarf að nota ímyndunaraflið og börn hafa vonandi nóg af því. Þið eruð bara að labba um í sama rýminu og „leysa" verkefni og reyna að finna morðingjann. Þið getið teiknað öll verkefnin eða prentað út og spilað saman 6-10 manns. Það er gott að hafa einhvern fullorðinn sem stýrir leiknum, þó hann taki þátt einnig. Það er gott að einhver taki stjórnina smá í kosningum og svona til þess að hjálpa börnunum áfram. Þetta er tilvalið fyrir fjölskyldur að sýna börnunum áhuga og áhugamálum þeirra en einnig að spila saman skemmtilegan leik. Hver leikur ætti að taka um 5-10 mínútur.

Ég vona að þið njótið þess að spila saman og hafi áhuga á því sem börnin hafa áhuga með fjölskyldustund. Eina sem þið þurfið eru blöð, blýantar, litir, ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn.

Góða skemmtun

Ingvi Hrannar 😊

Previous
Previous

Íslandsverkefni í 3.bekk Árskóla

Next
Next

Nokkur verkefni um bíla og vélar - Yngsta stig