Íslendingasögur endursagðar á samfélagsmiðlum
Það er mikil ánægja að vera kominn aftur til starfa í grunnskólunum í Skagafirði eftir geggjað ár í Stanford að læra Learning, Design & Technology. Einn mikilvægasti hluti starfs míns sem kennsluráðgjafa er að vera 1-4 vikur í hverjum árgangi og fá að vinna þar með nemendum og kennurum. Ég sá að lítið gerðist þegar ég var á skrifstofunni að senda tölvupósta til kennara. Mest gerðist þegar ég bætist við teymin og fæ að vinna með nemendum.
Í þessari viku var ég á unglingastigi í Varmahlíðarskóla og vann þar m.a. með Ólafi Atla Sindrasyni kennara þar. Þegar ég kom í skólann á mánudaginn voru nemendur að klára að lesa Gísla sögu og settumst við Óli niður og ræddum um næstu skref..
Markmið aðalnámskrár (sem finna má hér) í Íslensku sem taka átti fyrir voru:
Greint og skilið aðalatriði og aukaatriði í margs konar texta og glöggvað sig á tengslum efnisatriða
Lesið, túlkað, metið og fjallað um fjölbreyttar íslenskar og erlendar bókmenntir og gert sér grein fyrir gildi bókmennta
Skrifað rafrænan texta og tengt texta, mynd og hljóð eftir því sem við á, gerir sér grein fyrir lesanda og miðar samningu við hann.
Valið og skrifað mismunandi textagerðir sem hæfa viðkomandi verki og beitt mismunandi orðaforða og málsniði við hæfi.
Gert sér grein fyrir mismunandi málnotkun og málsniði eftir efni og tilefni. Áttar sig á staðbundnum, starfstengdum og aldurstengdum tilbrigðum í orðaforða og málnotkun og þekkir til helstu framburðarmállýskna.
Eftir nokkra umræðu ákváðum við að í stað þess að hver nemandi fengi kafla/hluta úr sögunni og ætti að endursegja hann í pontu fyrir framan bekkinn, eða að skrifa um hann pistil/ritgerð eins og áður að við skyldum fara þá leið að láta nemendur endursegja söguna á samfélagsmiðlum.
Hugmyndin var því að Gísla saga yrði endursögð eins og Facebook, Instagram og TikTok hefði verið til á tíma sögunnar.
Í stað þess að búa til gervi-prófíla fyrir hverja persónu, ákváðum við að fá myndir af öllum persónum (skjámyndir úr bíómyndinni) og að nemendur skyldu vinna í sömu Google Slides kynningunni og hver og einn hópur með sinn atburð. Við bjuggum til glærur í Google Slides og fórum svo yfir verkefnið með nemendum.
Hver hópur fékk 1-3 atburði sögunni, og svo var búið til kaflaheiti í glærukynningunni og nemendur ættu að endursegja þann atburð eins og persónurnar sjálfar hefðu sagt frá á samfélagsmiðlum.
Þá þarftu að huga að orðalagi, hver setur 'like' hver setur athugasemd og hvað viðkomandi segir. Flest var sett upp sem status á Facebook, myndir voru settar á Instagram og myndbönd á TikTok.
Það er óhætt að segja að nemendur (og við kennararnir) höfum skemmt okkur vel við þetta og í vikunni voru nemendur í 8-9.bekk mættir á undan okkur í tima, búin að taka upp tækin og byrjuð að vinna áður en tíminn byrjaði 🤓.
Nemendur unnu í 2-3ja manna hópum og voru með nokkra atburði í bókinni. Þau báru ábyrgð á að setningar væru í tímaröð, rétt væri farið með söguatburði, endursögn við hæfi persónunnar og rökstutt hver setti like, hver setti athugasemd og svo framvegis.
Í lokin var svo komin ein löng glærusýning þar sem sagan var endursögð m.a. í gegnum Facebook, Instagram og TikTok (án þess að búa til einhverja gerviprófæla).
Þetta var frábært verkefni sem sýndi vel skilning nemenda, sköpun, samvinnu og dýpkaði lesskilning þeirra.
Nokkrar skjámyndir úr endursögunni:
Þetta er verkefni sem gæti hentað í skapandi endursögn á hvers kyns sögu og gerði ég glærurnar (template) aðgengilegt fyrir hvern sem er að taka og nota.
Hér eru glærurnar sem þú getur notað ef þú vilt nota verkefni sem þetta með þínum nemendum:
Glærur með sniðmáti að samfélagsmiðlum
Þú getur einfaldlega afritað glærurnar og sett í glærukynningu fyrir nemendur.
Gangi ykkur vel 🙏
Ingvi Hrannar og Ólafur Atli