Nokkur verkefni um bíla og vélar - Yngsta stig
Í síðustu viku fékk ég nokkra daga með 2.bekk í Árskóla og teymiskennurum þeirra, Sigrúnu Sig. og Sigríðir Stefánsdóttur. Í vikunni áður höfðum við rætt um markmið og viðfangsefni og nefndu kennararnir að næst á dagskrá væri að læra aðeins um bíla (farartæki) og vélar. Námsefni til grundvallar var bókin Komdu og skoðaðu bílinn.
Við ákváðum að þetta væri tilvalið tækifæri fyrir nemendur að forrita litlar mýs sem kallast Bee-Bot og kenna þeim um leið á landakort, segja þeim frá vélum, sjálfkeyrandi bílum, umferðarreglum ásamt því að vinna að nokkrum markmiðum forritunar í Árskóla. Nemendur unnu alls kyns önnur verkefni með kennurum en ég vildi nefna nokkur óhefðbundnari hér.
Að forrita "mýs" eftir landakorti
Tveir nemendur unnu saman með eina mús og skipulögðu leiðir músarinnar eftir þremur landakortum. Við ræddum mikið um það hvernig það lítur út að vera góður samstarfsfélagi og hafði það mjög góð áhrif á samvinnuna.
Bee-Bot er vélmenni sem hægt er að forrita án þess að nota skjá. Ofan á eru hnappar og eiga nemendur að forrita leiðina í huganum með talningu og samvinnu og smella svo á grænan 'GO' hnapp á miðjunni. Bee-Bot fylgir öllum skipunum og endar vonandi á réttum stað... annars er ekkert annað að gera en að reyna aftur og ræða um hvað fór úrskeiðis.
Að skoða vélar og tæki í gagnauknum veruleika (AR)
Með nýjum iPödum (5.kynslóð eða seinna) er stuðningur við Gagnaukinn veruleika og að staðsetja hluti í umhverfið m.a. með Google Expeditions. Staðsetningarblöð (e. Markers) eru prentuð út og dreift um stofuna (...hægt er að sækja þau hér), og nokkrir leiðangrar sóttir í spjaldtölvurnar. Við fundum efni um gíra, farartæki, einfaldar vélar og svo framvegis.
Nemendur skoða svo og ganga í kringum alls konar tæki, ræða saman og geta m.a.s. stækkað hlutina svo mikið að þau fara inní þá. Ef bíll, rúta eða lest er stækkaður í forritinu geta nemendur gengið inní þeim sem var afar spennandi. Þarna inni gátu nemendur séð gírskiptingu, vél í gangi, skoðað grind í bíl, gengið í kringum lest og upplifað hluti sem ekki eru til hér á landi.
Að smíða bíl úr pappa og keyra með Sphero
Nemendur smíðuðu einnig sinn eiginn bíl úr pappa og byggðu hann í kringum 0,5l plastglas. Það nefndum við vélarrými því þangað myndi vélin koma þegar bíllinn hafði staðist skoðun, vonandi í lok vikunnar.
Skoðun fór fram og þurfti bíllinn að uppfylla ákveðnar kröfur, vera málaður, hafa vélarrými, ljós, glugga og fleira. Þá fengu nemendur kringlóttan límmiða sem á stóð 2021 og settur var á númeraplötuna.
Í vélarrýmið var svo settur Sphero BOLT vélmenni sem kennarar höfðu forritað. Hér að neðan má sjá einfaldan kóða sem var notaður. Þar er bílnum startað, bíllinn keyrir af stað, skransar, stoöðvast í eina sekúndu og keyrir sömu leið til baka áður en hann flautar.
Þessi verkefni eru brot af því sem nemendur gerðu í vikunni. Áhuginn leyndi sér ekki og ljóst að nemendur skemmtu sér vel. Allir fóru heim í lok vikunnar með bíl ásamt því að myndbandið (líkt og það hér að ofan) fór í Seesaw ferilmöppu hvers nemanda þar sem það er m.a. sýnilegt foreldrum barnsins.
Vonandi nýtist eitthvað af þessu þér og þínum nemendum er þú skipuleggur nám og kennslu.
Ingvi Hrannar