Raunveruleg samskipti í flóknum netheimi
Það er óhætt að segja að samskipti okkar hafi breyst töluvert á síðustu 5-10 árum. Aukin tölvu og tækninotkun, með samskiptamiðlum, SMS og tölvupóstum, hafa gert okkur kleift að eiga samskipti við fleira fólk á einfaldari og fljótlegri hátt.Það er hins vegar ekki allt gott við þessar nýju samskiptaleiðir. Þær eru fínar til að senda stutt skilaboð eða mæla okkur mót en eiga ekki að koma í staðinn fyrir raunveruleg mannleg samskipti sem gerast í rauntíma, augliti til auglitis og eru ekki alltaf auðveld eða einföld. Samskipti sem leyfa þér ekki að laga og stroka út heldur gera mistök, hugsa hratt, sýna svipbrigði, beita röddinni og nota líkamstjáningu til þess að koma skilaboðum áleiðis, hlægja upphátt, standa fyrir máli þínu, segja ekki alltaf réttu hlutina, leiðrétta þig og biðjast afsökunar. Í raunverulegum mannlegum samskiptum erum við mannleg og eigum djúp, innihaldsrík samtöl við fáa í stað stuttra samtala við marga.Það er miklu auðveldara að senda SMS eða tölvupóst og eiga samskipti við fólk á netinu í stað þess að fara í heimsókn eða fá gesti. Bak við skjáinn erum við öruggari, getum gefið okkur langan tíma til þess að hugsa hvað við ætlum að segja, breyta, bæta og velja alltaf réttu orðin. Segja aðeins frá því sem við viljum, koma fram eins og við viljum að aðrir sjái okkur, þurfum ekki að greiða okkur eða bursta í okkur tennurnar áður en við tölum við einhvern, sýnum aðeins myndirnar sem við lítum best út á, eyðum 'status'-um sem fá ekki ‘like' og gerum okkur jafnvel upp tilfinningar og upplifanir til þess að fá viðbrögð. Skiptum út raunverulegum samskiptum og eigum hundruðir eða þúsundir “vina” og eigum nú fleiri samskipti en nokkru sinni áður en á sama tíma sýna rannsóknir að fleira fólk finnist það vera einmanna nú en áður.Þrátt fyrir allt þetta sé ég marga kosti við samskiptamiðla, þ.e.a.s. ef við notum þá til þess að efla mannleg samskipti en ekki að skipta þeim út, og nota ég þá töluvert en þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Í augnablikinu kann ég best við Twitter, Facebook hefur sína kosti, Vine getur verið skemmtilegt sem og Google Hangout, FaceTime og Skype. Samskiptamiðillinn SnapChat hefur þó valdið mér áhyggjum, sérstaklega í ljósi umræðu fyrir nokkrum mánuðum um 13 ára stúlku á Akureyri sem tók mynd af sér sem hún vildi ekki að færi til allra, sendi með SnapChat og hélt að myndin eyddist innan 10 sekúndna en fór svo um eins og eldur í sinu vegna þess að myndin var vistuð á einfaldan hátt og dreift.Ég eyddi SnapChat aðganginum mínum í september s.l. eftir um 9 mánaða notkun. Ein ástæðan fyrir því var að flest skilaboðin sem mér bárust á SnapChat komu mér alls ekkert við og önnur forrit/öpp tel ég vera mun betri og einfaldari til samskipta en aðalástæðan er til þess að sýna öðrum gott fordæmi og hvetja um leið foreldra til þess að ræða við börnin sín um hætturnar sem leynast á samskiptamiðlum.Það sem SnapChat gerir sem flestir aðrir samskiptamiðlar gera ekki er að telja notendum sínum í trú um að skilaboðin muni eyðast eftir að þau hafa verið skoðuð. Ef smáa letrið hjá SnapChat er skoðað stendur hins vegar:"We cannot guarantee that deletion always occurs within a particular timeframe”.En við skulum ekki gleyma að fólk er ekki aðeins með minni í símanum, heldur einnig með raunverulegt minni og það eru nokkrir hlutir sem ungt fólk, eða bara allir, þurfa að læra um samskiptamiðla:
- Það er ekkert á samskiptamiðlum sem heitir einkaskilaboð því viðtakandinn getur alltaf vistað og dreift og er því með ákveðið vald yfir sendandanum.
- Allir geta séð allt sem við setjum á netið.
- Allt sem sett er á netið er þar alltaf.
- Ef þú notar fría þjónustu (eins og SnapChat) ert þú í raun ekki notandinn, heldur varan sjálf.
Um leið og fólk fær vettvang sem þau halda að sé lokaður gera þau hluti sem þau myndu annars ekki gera fyrir allra augum og sumir bæði senda og fá skilaboð sem þau ráða ekki alltaf við. Sem dæmi væri í raun hægt að kæra þá sem fengu myndina af 13 ára stelpunni á Akureyri fyrir vörslu barnakláms en það er þó önnur saga.Einfaldasta leiðin til að forðast þessi skilaboð er að smella á þennan hlekk:http://www.snapchat.com/a/delete_accountEn það að eyða aðganginum hjá barninu er engin lausn ein og sér heldur setur vandamálið aðeins á bið. Það sem er mikilvægast í öllu þessu er að börn læri hvernig nota á þessa tækni og hvernig eigi að bregðast við þegar þau fá eitthvað sem þau vita að er rangt.Það er ómögulegt fyrir foreldra, eða nokkrun mann, að fylgjast með öllum nýju forritunum sem koma út og heitir forritið SnapChat í dag en eitthvað annað á morgun. Við heyrum stundum fréttir um eitthvað skelfilegt sem gerðist á samskiptamiðlum eða í gegnum þá en ástæðan fyrir því að það er í fréttum er vegna þess að það er sjaldgæft, en þó alvarlegt þegar það gerist. Samskipti á netinu geta verið varasöm alveg eins og sundlaugar geta verið hættulegar, sérstaklega fyrir ung börn en þess vegna kennum við þeim að synda, látum þau hafa kúta til að byrja með og förum alltaf með þeim í sund þangað til við treystum þeim að spreyta sig sjálf í lauginni en höfum þó augu með þeim. Við ættum að gera það sama með tæknina.Fyrir foreldra er mikilvægt að tala við börnin og unglingana um þau forrit sem þau nota og biðja þau, af einlægum áhuga, að kenna þér á þau. Spyrja af hverju þau noti þetta, til hvers, hvað þau sendi og hvað ekki. Benda þeim á að þau bera aðeins ábyrgð á því sem þau sendi, en ekki því sem þau fá sent. Þau geta ekki stjórnað hvað aðrir sendi og að foreldrar verði ekki reiðir við þau ef þau fá mynd sem þau vildu ekki fá. Þau eigi aðeins að taka skjámynd (sjá leiðbeiningar neðst), sýna og segja fullorðnum frá svo við getum hjálpað manneskjunni sem sendi þeim myndina.Ef þú ræðir við barnið, sýnir áhuga, byggir upp gagnkvæmt traust og lætur samskipti þess þig varða eru þau líklegri til þess að koma til þín þegar þau eru i vandræðum og jafnvel segja þér frá nýjasta forritinu/appinu sem þau eru að nota. Látum börnin ekki um það að læra á hætturnar ein inni í herbergi og að móta sínar samskiptaleiðir á netinu sjálf án þess að hafa náð tökum á raunverulegum mannlegum samskiptum. Þau geta kennt okkur á tæknina en við leiðbeinum þeim um notkunina.Ef við notum rafræn samskipti rétt þá munu þau ekki skipta út mannlegum samskiptum heldur efla þau. Við notum ekki tölvur og tæki því við viljum umgangast vélar heldur vegna þess að þau auðvelda okkur að eiga samskipti við annað fólk. Mannleg samskipti eru í raun algjör óreiða, óskipulögð og ótútreiknanleg en nauðsynlegri en nokkuð sem við getum skrifað í netspjalli því í raunverulegum samskiptum erum við mannleg.Ekki gleyma því svo að eiga alvöru samskipti við fólk, fara í heimsókn, fá gesti og ekki halda að barnið ykkar eða unglingurinn eigi fullt af vinum af því að hann er alltaf inni í herbergi í símanum eða tölvunni að tala við vini sína á Facebook eða SnapChat. Það eru ekki raunveruleg samskipti. Hvetjð þau til þess að nota samskiptamiðla á réttan hátt, ræðið við þau um það að þeir séu ætlaðir til þess að auðvelda okkur að hittast en ekki til þess að skipta út raunverulegum samskiptum.Gangi ykkur vel og vonandi mun þetta aðstoða einhvern og vekja bæði börn og foreldra til umhugsunar um samskipti okkar allra, inni á samskiptamiðlum sem og utan þeirra.Ingvi Hrannar ÓmarssonFollow @ingviomarssonFollow @ingvihrannar
-------Skjáskot: http://www.wikihow.com/Screenshot-a-SnapchatNektarmynd af 13 ára stúlku á SnapChat í dreifingu: http://bit.ly/1ceSIdYSamskipti á netinu:SAFT - vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi: http://www.saft.is/A Parents Guide to Facebook: http://www.connectsafely.org/pdfs/fbparents.pdfA Parents Guide To SnapChat: http://www.connectsafely.org/wp-content/uploads/snapchat_guide.pdfA Parents Guide To Instagram: http://www.connectsafely.org/wp-content/uploads/instagram_guide.pdfSamskipti almennt:Sherry Turkle - Connected, but alone? http://www.ted.com/talks/sherry_turkle_alone_together.html-The Innovation of Loneliness (byggt á fyrirlestri Sherry Turkle) https://vimeo.com/70534716Alone Together: Why We Expect More From Technology and Less From Each Other: http://www.amazon.com/gp/product/B004DL0KW0/ref=kinw_myk_ro_title