Winning Without Loosing

Bókaumfjöllun aprílmánaðar 2014 eru um 'Winning Without Losing' eftir Martin Bjergegaard og Jordan Milne sem fjallar um 66 leiðir til þess að ná langt faglega ásamt þvi að halda jafnvægi í hamingjusömu lífi (Hægt er að ná í mini-útgáfu af bókinni hér). Þeir félagar tóku viðtöl við 25 fyrirmyndir úr viðskiptalífinu sem eiga það sameiginlegt að hafa fundið þetta jafnvægi. Bókinni er skipt í 7 hluta sem hverjum er skipt í 5-15 undirkafla (alls 66 undirkafla.)Bókin byrjar á setningu frá Sam Walton, stofnanda Wal-Mart sem þá lá dánarleguna með fjölskyldu sína sér við hlið. „Ég klúðraði þessu” segir Sam sem vísar þá til þess að hann sjálfur varla þekkja börnin sín og barnabörn. Hann var of einbeittur á vinnuna og þetta er eitthvað sem margir hafa upplifað á sinni ævi en uppgötva það vanalega of seint.Gamla mantran um að til þess að ná langt þurfir þú einfaldlega að vinna meira en aðrir er ekki lengur sönn. Það er nefnilega bæði hægt að vinna og eiga gott fjölskyldulíf, ekki annað hvort. Þar vísa höfundar í ’The Law of Diminishing Return’ sem segir að við fáum mikið úr því fyrsta sem við getum en svo minna og minna rétt eins og að vökva blóm. Fyrsta kannan af vatni er lífsnauðsynleg, önnur er kannski of mikið og sú þriðja drekkir blóminu líklega. Það er það sama með vinnuna.Jafnvægi er lykilorðið og samanstendur líklega af einhverri blöndu af eftirfarandi þáttum:

  1. Jákvæð sambönd og samskipti við annað fólk.
  2. Að vera góð/-ur í einhverju.
  3. Hafa fjárhagslegt frelsi.
  4. Vera hraust/-ur andlega og líkamlega.
  5. Hafa stjórn á eigin lífi.
  6. Leggja sitt að mörkum til annarra og einhvers æðri tilgangs.
  7. Ég mun stikla á stóru í umfjölluninni og nefna nokkur atriði í hverjum hluta.

Hér eru meginatriðin (að mínu mati) úr bókinni tekin saman í þeim köflum sem þau er að finna. Að sjálfsögðu á ekki að taka allt bókstaflega en gott að velta því fyrir sér og velja úr.Byrjum á kaflanum um Aukina skilvirkni

  1. Farðu af stað: Það sem þú ert að gera í dag er kannski ekki það mikilvægasta í heimi en það er skref í áttina að einhverju meira. Ekki bíða eftir stóru hugmyndinni heldur farðu af stað og hættu að bíða.
  2. Vertu öðruvísi, gerðu eitthvað annað en allir hinir: Ekki láta aðra móta það hvernig þú ert eða hvað þú getur orðið.
  3. Láttu tæknina vinna fyrir þig: Lærðu á ný tæki, öpp og forrit og notaðu þau svo til að spara þér tíma. Það er erfitt fyrstu vikuna en auðveldara næsta árið. Það er þess virði.
  4. Settu fólk í fyrsta sæti: Hjálpaðu öðrum og hlustaðu á þau.
  5. Fáðu orku frá öðrum: Þegar þú færð hugmynd að verkefni, hugsaðu þá; hvern gæti ég fengið hugmyndir og innblástur frá og get ég boðið viðkomandi í kaffi til mín að ræða þetta.
  6. Hlustaðu: Eftir að þú hlustar spyrðu: Segðu mér meira; Hvað þýðir það? og/eða Hvað þýðir það fyrir þig? og hafðu svo hljóð.
  7. Ekki reyna of mikið: Slakaðu á jafnvel þó aðrir séu að fara yfir um… horfðu á forseta Bandaríkjanna… alltaf rólegur á meðan aðstoðarmennirnir eru hlaupandi um allt.
  8. Láttu ölduna flytja þig: Hlustaðu á sjálfa/-nn þig, líkmann og hugann og spurðu: „Hvernig líður mér núna og hvað er ég í stuði til að gera? Hvernig er orkan mín? Vil ég lesa? Skrifa? Slaka á? ekki neyða þig til að fylgja alltaf einhverju plani.
  9. Leyfðu heilanum að slaka á: Farðu í íhugun og jóga og gefðu huganum frí öðru hvoru, rétt eins og vöðvunum.

Nýjar leiðir að gera gamla hluti:

  1. Endurhugsaðu fundi: Af hverju fara allir fundir fram sitjandi við borð í einhverju lokuðu herbergi? Farðu í göngufundi, sérstaklega ef fundurinn er líklegur til að verða erfiður.
  2. Ekki gera To-Do lista heldur TODAY lista: Ekki skrifa allt sem þú átt eftir að gera í lífinu heldur bara hvað þú telur að þú þurfir að klára í dag og settu eins mikið og þú telur duga til að kalla þennan dag góðan.
  3. Lærðu eitthvað annað: Með því að horfa á sömu fréttir og allir aðrir, lesa sömu bækurnar og tala við sama fólkið verður þú eins og allir hinir og hefur ekki þekkingu sem aðra skrotir. Gerðu eitthvað annað og lærðu eitthvað nýtt.

'Tíma og orku’-sóun:

  1. Einfaldaðu lífið þitt: Hættu að gera hluti sem þú þarft ekki að gera. Gerðu það sem skiptir þig máli og gerir þig hamingjusama/-nn.
  2. Horfðu upp úr vinnunni: Að taka skref til baka til þess að sjá stóru myndina er mikilvægt til þess að sjá hvað er að koma næst. Ekki kaffæra þér í vinnu og gleyma að koma upp til að anda.
  3. Slepptu takinu: Umvefðu þig fólki sem þú treystir og treystu þeim til að vinna sinn hluta… þó það þýði að það sé ekki allt gert eftir þínu höfði.
  4. Ekki fela hugmyndir þínar: Farðu út og segðu fólki frá hugmyndum þínum. Ekki vera hrædd/-ur um að einhver steli þeim. Hugmyndir eru þannig að því fleiri sem heyra þær, því stærri verða þær en ekki eins og kaka sem verður minni eftir sem fleiri fá sér sneið.

Þegar illa árar:

  1. Ekki hætta: Hamingjan snýst um að vera virkur og takast á við nýjar áskoranir sem hjálpa þér að vaxa en ekki sitja og bíða.
  2. Það er aldrei of seint: Ekki láta aldur vera hindrun. Hugsaðu um 100 ára maraþon-hlauparann frá Indlandi eða Anna Mary Robertsson sem byrjaði að mála 76 ára eða Colonel Sanders sem stofnaði KFC 65 ára.

Hannað með jafnvægi í huga:

  1. 8-8-8: Þessi regla snýst um að þú sofir í 8 tíma, vinnir í 8 tíma og hafir svo 8 tíma fyrir persónulega lífið. Nýttu þá vel.
  2. Lagaðu inni/úti hlutfallið þitt: Við erum alltof mikið inni og legg ég til að þú hættir að lesa núna og farir út…. þó það sé ekki nema í 2 mínútur.
  3. Veldu besta staðinn þinn: Þegar þú ert að ákveða hvar þú ætlar að búa, hugsaðu þá um heildarmyndina. Viltu eyða klst. á dag í bíl til og frá vinnu? VIltu geta farið á skíði? Hvar viltu að börnin þín alist upp?
  4. Gerðu hlutina einfalda: Einfalt er betra. Ef þú ert að vinna verkefni, gerðu það þá eins einfalt og hægt er. Ekki flækja hlutina því þá virka þeir ekki.

Nýtt hugarástand:

  1. Lifðu núna!: Þú ert væntanlega svo upptekin/-nn að þú segir: Ég fer í ræktina um leið og þessi törn klárast í næstu viku eða að það sé mikið að gera á þessu ári en það næsta verður allt öðruvísi. Hættu þessu og lifðu núna!
  2. Eignastu barn (eða þóttust eiga barn): Þeir sem vinna 60-70 tíma á viku uppgötva þegar þeir eignast börn að þeir ná að gera það sama á 40 tímum. Gerðu barnið þitt og fjölskylduna að forgangsatriði og ef þú átt ekki barn, láttu þá bara eins og þú eigir barn og gerðu badminton-tímann þinn eða körfuboltann með félögunum að þínu barni. Ekki sleppa því af því að þú átt ekki barn.
  3. Lærðu af öllu sem þú gerir: Margir telja að áhugamál hjálpi ekkert í vinnunni þinni en í sannleika sagt eru það þeir hlutir sem gera þig að því sem þú ert. Hversu oft hefur þú fengið nýja hugmynd frá bók sem þú last, eða leystir vandamál á meðan þú varst að skokka.
  4. Þú ert ekki vinnan þín: Margir skilgreina sig eftir því hvað þeir gera en ekki hver þeir eru. Búðu til ‘utan-vinnu persónu’ sem fær orku frá áhugamálum sínum og er meira en starfsmaður.
  5. Þú ert ekki að missa af neinu: Það er allt í lagi að taka ekki þátt í öllu sem vinir þínir eru að gera. Veldu úr það sem vekur þinn áhuga og slepptu hinu.
  6. Hugsaðu um þig fyrst, annars getur þú ekki hugsað um aðra: Það er ástæða fyrir því að flugfreyjur/-þjónar segja þér að setja súrefnisgrímuna fyrst á þig áður en þú aðstoðar aðra. Það sama á við í lífinu. Þú hjálpar ekki öðrum nema að þú getir hjálpað þér sjálf/-ur.

Taktu til þinna ráða:

  1. Klukkustund á fullu: Veldu bara eina klukkustund á morgun þar sem þú vinnur. Sjáðu hve mikið þú getur gert ef þú setur þér markmið og taktu þér svo frí.
  2. Hreyfðu þig: í flestum vinnum hreyfum við okkur of lítið. Nýttu öll tækifæri sem gefast til æfinga, taktu stigann, notaðu jógabolta í staðinn fyrir skrifborðsstól og labbaðu í vinnuna.
  3. Gerðu það leiðinlegasta fyrst: Ef þú gerir það þá gerast hinir hlutirnir að sjálfu sér.Taktu frí á morgun!: Þú ert ábyggilega rosalega upptekin/-nn og ætlaðir ekki að taka þér frí fyrr en næsta sumar. En taktu þér frí á morgun og taktu stjórnina á þínu lífi. Gerðu það sem þér finnst skemmtilegt, farðu í göngutúr, sund, horfðu á heila seríu af Friends, leiktu við börnin þín, bakaðu eða hvað sem gleur þig. Þetta mun auka frumkvæði þitt, hugmyndaflæði og gleði.Vinnan er ekki allt og þú átt skilið frí.
  4. Finndu tilganginn þinn: Spurðu þig þessara spurninga í leit þinni að tilgangnum:
  • Hvenær er ég glaðstur/glöðust?
  •  Af hverju þá?
  • Get ég unnið við eitthvað tengt því?
  • Hvað heldur aftur af mér?
  • Hvernig get ég náð þessu á innan við einu ári?

Ég hafði gaman af þessari bók og var hún fljótlesin. Það var ekkert mál að grípa hana og lesa einn til tvo stutta kafla og loka henni svo. Ég gat einnig gleymt mér í henni og áður en ég vissi af klárað stóran hluta.Ég mæli svosem ekki með að allir kaupi hana en hún er skemmtileg lesning fyrir frumkvöðla og þá sem eiga það til að vinna allt of mikið.Njótið lífsins og takk fyrir að lesa.Ingvi Hrannar Ómarsson