Það er ekki lengur hægt að sitja bara og reyna að bíða af sér tæknina - Viðtal við Skólavörðuna 1.tbl. 2019

Um daginn fór ég í viðtal fyrir 1.tbl. 2019 hjá Skólavörðunni þar sem ég svaraði nokkrum spurningum um notkun tækni í skólastarfi. Ég ákvað að deila svörum mínum við þessum spurningum bæði hér á blogginu mínu sem og í hlaðvarpinu 'Menntavarp' sem þið getið fundið alls staðar sem þið hlustið á hlaðvörp.Blaðið í heild má lesa hér en viðtalið við mig er hér fyrir neðan.

Hvernig hefur kennsla breyst með tilkomu snjalltækni?

Spurningin ætti í raun að vera hvernig GETUR kennsla breyst með tilkomu snjalltækni því sums staðar hefur kennsla lítið breyst og annars staðar hefur hún gjörbreyst. Snjalltæki eru komin inn í skólana alla, hvort sem það er sem bannaður sími í vasanum á nemendum eða iPad-ar sem skólinn hefur ákveðið að nýta eigi til náms. Það er kannski það sem við ættum helst að vera að skoða. Af hverju sumir fara af stað á meðan aðrir ætla sér að bíða af sér internetið.Það sem við sjáum í þeim skólum landsins sem hafa innleitt tækni inn í nám og kennslu, bæði nemenda og starfsmanna, er að verkfærunum fjölgar, möguleikar á því að sækja sér þekkingu eykst, færnin við að nýta tækni sem námstæki en ekki einungis leiktæki margfaldast og nemendur hafa meiri möguleika í skilum á verkefnum svo eitthvað sé nefnt.

Eru möguleikarnir endalausir eða er eitthvað sem er hamlandi samhliða þessari tækni?

Það eina sem er hamlandi við notkun er okkar eigin ímyndunarafl, sýn okkar á hvað menntun er og hefur alltaf verið og hvort kennarar telja sig vera hluta af lærdómssamfélagi skólans eða ekki.Sumir telja nefnilega að námi sínu hafi lokið við útskrift úr Kennraháskólanum fyrir nokkrum árum eða áratugum á meðan aðrir kennarar, á öllum aldri, halda áfram að mennta sig í gegnum miðla eins og Twitter (#menntaspjall), Facebook-hópa, lesa (eða jafnvel skrifa) blogg, hlusta á hlaðvörp (e.Podcast) eins og Menntavarp, mæta á ráðstefnur og fikta í sínum undirbúningstíma.

Sitja nemendur við sama borð námslega þar sem ekki allir skólar eru með slíka tækni í kennslu?

Að sjálfsögðu ekki og það er miður. En það að kaupa tækni eina og sér án þess að ætla að breyta skólastarfi, t.d. með teymiskennslu, mun lítið gera. Einangraður kennari, sem fær ekki stuðning til þess að breyta kennsluháttum og þróast í starfi mun ekki gera það. Skólastjórnendur verða að hafa sýn á af hverju þeir vilja slíka tækni inn, hvaða markmiðum þeir vilja ná og hvaða leiðir á að fara. Það er ekki bara nóg að kaupa tæki og velta svo fyrir sér af hverju þau eru ekki notuð. Ef þú kaupir þér hund sem þú ætlar ekki að hugsa um eða ala upp, ekki láta koma þér á óvart ef hann bítur þig einn daginn.

Hvernig finnst þér undirbúningi kennara varðandi þessa byltingu vera háttað?

Aftur, það fer eftir skólum. Í sumum skólum, sem nýta tækni, fá kennarar stuðning til þess að prófa nýja hluti og breyta til. Þeir fá stuðning hver af öðrum kennurunm með teymiskennslu, í sameiginlegum vinnurýmum, með sveigjanlegum vinnutíma, tækjum eins og fartölvum og spjaldtölvum og öflugu þráðlausu neti sem styðja þá sýn, kennsluráðgjöfum sem vinna með þeim og tækifæri til að þróa sig í starfi með því að fara á ráðstefnur og heimsækja aðra skóla. Aðrir skólar hafa það bara áfram þannig að hver kennari hafi sína kennslustofu með 20 borðum og 20 stólum. Kennaraborðið sé fremst og á henni er borðtölva tengd lélegu snúruneti. Mest er talað um stimpilklukkur og inn- og útskráningu á starfsmannafundum og ef kennarar vilja fara á ráðstefnur eða skólaheimsóknir þá þurfa þeir að finna einhvern sjálfir til að leysa sig af.Ég held að skólastjórnendur og sveitarstjórnarfólk geti ekki lengur setið og beðið af sér tæknina. En vitið þó að innleiðing á tækni mistekst í 100% tilvika þegar skólastjórnendur halda að eina sem þurfi að breytast séu tólin en ekki skólinn.

Er kennaranám að undirbúa kennara í takt við nýja tíma?

Það er í raun ekki hægt að kenna beint á tæknina. Lærdómurinn verður til á meðan þú ert upptekinn við að gera aðra hluti. Þú lærir ekki raunverulega á verkfæri fyrr en þú hefur ástæðu til að nota það.Ég hef aldrei lært á eitthvað til þess eins að læra á það heldur lært á það með mistökum og tilraunum því ég vil gera eitthvað með það. Tæknin uppfyllir einhvern annan tilgang. Þetta er ekki ósvipað því að læra á hljóðfæri. Þeir sem vilja læra spila á gítar til dæmis gera það af því þeir vilja læra að spila eitthvað ákveðið lag. Þú lærir ekki bara G af því þú vilt það heldur af því að það er G í einhverju lagi. Það er eins með tækninotkun. Ég held að á meðan kennaranámið hjálpar nemendum að tileinka sér hugarfar þess sem prófar nýja hluti, setur spurningamerki við það hvernig við gerum hlutina og gerir eitthvað í því, þá séu þeir að undirbúa kennara í takt við nýja tíma, alltaf. Kennaranám er ekki að undirbúa kennara í takt við nýja tíma með því einu að kenna þeim forritun eða hvernig á að nota iMovie. Þetta snýst um „mindset” en ekki „skillset” og því fyrr sem þau sjá það, því betra.

Hvernig verður kennslustofan árið 2050?

Ég hef ekki hugmynd… og það er svo spennandi.

Previous
Previous

8 spurningar fyrir kennara í lok skólaársins

Next
Next

Seesaw plaköt fyrir kennara