Að hafa rángt fyrir sér

Þegar þú fæðist snýst allt lífið þitt um að prófa þig áfram, gera mistök og reyna aftur. Þannig lærum við. Stöndum upp, dettum og reynum aftur. Við hlustum á tungumál í umhverfi okkar, förum smátt og smátt að taka þátt, bæta inn nokkrum orðum og lærum á okkar hraða. Þannig lærum við og erum náttúrulega forvitin frá fæðingu.Börn eru ekki hrædd við að taka áhættur, ef þau vita ekki eitthvað þá reyna þau allavega að finna útúr því. Því eldri (og menntaðri) sem þau verða læra þau að reyna ekki því mistök eru ekki góð. Á skólagöngu okkar lærum við að standa í röð, þegja, hlusta, taka við, muna, endurtaka og vera eins og hinir. Vinna sömu verkefnin á sama hraða og allir hinir sem eru fæddir sama ár og við. Við erum skömmuð fyrir röng svör því það er aðeins eitt rétt svar við spurningu kennarans. Það er lítill tími til þess að rökræða, fara út fyrir kassann, prófa eitthvað annað og hafa rangt fyrir sér og af einhverri ástðæðu tökum við styttri tíma í það því eldri sem við verðum.Sir Ken Robinson sagði eitt sinn: "If you’re not prepared to be wrong, you’ll never come up with anything original."Þegar fólk útskrifast úr skóla hafa flestir lært að hafa ekki rangt fyrir sér og að mistök séu það versta sem þú getir gert. Hæfileikinn til þess að reyna hefur glatast, eða okkur verið stýrt frá því að vera skapandi. Alltof fáir þora að prófa, gera mistök og sýna að þau viti ekki eitthvað því það var það sem kom þeim í vandræði þegar þau ólust upp.Ég tók eftir þessu sérstaklega þegar ég sá þetta skemmtilega myndband frá Jimmy Kimmel þar sem fréttaritari hans tekur viðtal við nokkra einstaklinga sem eru að stefna á Coachella tónlistarhátíðina í Kaliforníu. Það sem þau eiga öll sameiginlegt er að hafa lært að hafa aldrei rangt fyrir sér, og að jafnvel þó þau viti ekki eitthvað skuli þau aldrei að segja neinum frá því, vegna þess að það sem við höfum lært, hvort sem við vildum það ekki ekki er að þú megir aldrei líta út fyrir að vita ekki eitthvað, því það sé veikleiki.http://www.youtube.com/watch?v=W_IzYUJANfkSkömmum ekki börnin okkar fyrir mistök, þau eru hluti af því að læra og ekki hætta að gera mistök þegar þú eldist.Ég geri mistök á hverjum degi og ég ætla ekki að hætta því. Þegar ég geri mistök veit ég að ég er að reyna eitthvað nýtt, skapa eitthvað, gera eitthvað sem ég hef ekki gert áður og prófa mig áfram.Það er hæfileiki sem við megum ekki glata. Finndu barnið inní þér og gerðu mistök, það gæti verið það besta sem þú gerðir í dag.Ingvi Hrannar Ómarsson,grunnskólakennari og nemandi í frumkvöðlafræðum við Háskólann í Lundi.