Skjálöggurnar

Það er eðlilegt að einhverjir foreldrar sem ólust upp við sjónvarpið sem eina skjáinn á heimilinu hafi áhyggjur af nýjungum eins og aukinni tækninotkun barna og ungmenna (þó þau gleymi reyndar sjálfum sér í þeirri upptalningu).

Einhverjir foreldrar og jafnvel skólar telja að með því að takmarka skjátíma séu þau einhvern veginn að bregðast rétt við þessu sem einhverjir kalla vandamál (sem það er þó í undantekningar tilfellum).

En það sem fæstir skilja samt er að skjátími tekur ekki tillit til þess hvernig börn eru að nýta tímann og ekki gott að einbeita sér að magni frekar en gæðum. Nauðsynlegt er að setja sameiginlegar reglur en mikill munur er á að barn eyði mörgum klukkustundum í að skoða klám og annað ofbeldi eitt inni í herbergi annars vegar eða að tala við vini sína um allt land, skipuleggja sig, lesa bók eða greinar, læra að forrita, búa til tónlistarmyndband, setja upp heimasíðu eða læra nýja færni eins og að syngja, elda, spila á hljóðfæri eða læra tungumál hinsvegar.

Foreldrar sjálfir eru mikilvægar fyrirmyndir varðandi tækninotkun og mikilvægt að þau líti EKKI á sig sem tækni-verði heldur fyrirmyndir og leiðbeinendur um notkun.

Tæknin getur nýst sem gríðarlega öflugt verkfæri í námi, leik og starfi svo lengi sem það hindrar ekki nægan svefn, hollt mataræði, samskipti og hreyfingu.

Í stað þess að horfa á klukkuna og taka tímann þurfa foreldrar að spyrja sig eftirfarandi 5 spurninga varðandi tækninotkun barnsins… (en ættu reyndar fyrst að spyrja sjálfa sig sömu spurninga):

  1. Er barnið mitt heilbrigt og er það að sofa nóg?

  2. Er barnið mitt að tengjast félagslega við fjölskyldu og vini (á einhvern hátt)?

  3. Er barnið mitt virkt og gengur vel í skóla?

  4. Hefur barnið mitt áhugamál (á einhvern hátt)?

  5. Hefur barnið mitt gaman af og er að læra af stafrænu efni?

(Blum og Livingston, 2016)

 mannleg samskipti, líkamleg þjálfun og vitsmunalegar ögranir eru nauðsynlegar fyrir börn frekar en að skjáir séu eitthvað vondir

Niðurstöður rannsókna AAP (American Academy of Pediatrics) á skjánotkun ungmenna eru ekki endilega að skjáir séu slæmir heldur benda þau miklu frekar á að mannleg samskipti, líkamleg þjálfun og vitsmunalegar ögranir séu nauðsynlegar fyrir börn (og reyndar fullorðna einnig).

Að gerast skjálögga og setja skjátíma er ekki lausn því það er ekki magn heldur gæði sem skipta öllu.

 

Ingvi Hrannar Ómarsson

@IngviHrannar

Ítarefni og heimildir:

https://medium.com/@josepicardoshs/technology-and-the-death-of-civilisation-5e831b3f8b5#.rdtaahy3x

http://blogs.lse.ac.uk/mediapolicyproject/2016/10/24/new-screen-time-rules-from-the-american-academy-of-pediatrics/

Blum-Ross, A. and S. Livingstone (2016) Families and screen time: Current advice and emerging research. Media Policy Brief 17. London: Media Policy Project, London School of Economics and Political Science.

https://blog.connectedcamps.com/how-dropping-screen-time-rules-can-fuel-extraordinary-learning/

https://media.npr.org/assets/img/2014/04/16/distracted-parents_wide-5694743d781df652a2c5811e7c46e94211e0ab5f.jpg?s=1400

https://www.youtube.com/watch?v=OgzdDp5qfdI&app=desktop#action=share

Previous
Previous

Við erum að éta börnin okkar

Next
Next

Hvernig var í skólanum í dag?